Hoppa yfir valmynd

Frétt

21. október 2019 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Skatturinn: Bætt þjónusta með nýrri og leiðandi upplýsingastofnun

Í frumvarpi til laga um breytingar á tollalögum og fleiri lögum sem fjármála- og efnahagsráðherra hefur lagt fyrir Alþingi er lagt til að embætti ríkisskattstjóra og tollstjóra verði sameinuð í öflugri og leiðandi upplýsingastofnun, Skattinum. Markmið breytinganna er að bæta þjónustu og hafa samþættingu, sjálfvirknivæðingu og stafræna opinbera þjónustu að leiðarljósi.

Í frumvarpinu felst að sameina verkefni á sviði tollafgreiðslu og tollgæslu, sem embætti tollstjóra annast nú, og þau verkefni sem embætti ríkisskattstjóra sinnir. Verði frumvarpið að lögum mun tollafgreiðsla og tollgæsla færast til ríkisskattstjóra frá og með 1. janúar 2020 og mun ríkisskattstjóri stýra hinni nýju stofnun, Skattinum. Hún verður betur í stakk búin til að takast á við áskoranir til framtíðar en tvær minni sjálfstæðar stofnanir, almenningi, starfsmönnum, ríkisaðilum og samfélaginu til hagsbóta. Ljóst er að mikil tækifæri felast í því að heildarferli þjónustu, álagningar, innheimtu og eftirlits sé á hendi eins og sama aðilans. Árangur við vettvangseftirlit tollgæslu ætti að aukast, auk þess sem möguleikar til að takast á við stærri efnahagsbrot innanlands og yfir landamæri, s.s. peningaþvætti, verða meiri. 

Frumvarpið byggist á vinnu nefndar um aukna skilvirkni í skattframkvæmd, álagningu og innheimtu opinberra gjalda sem fjármála- og efnahagsráðherra skipaði í júní 2018. Nefndin lagði til að innheimta opinberra gjalda, sem tollstjóri annaðist, yrði færð til ríkisskattstjóra og varð frumvarp þess efnis að lögum í desember 2018. Þann 1. maí 2019 fluttist innheimta opinberra gjalda á höfuðborgarsvæðinu til ríkisskattstjóra.

Frumvarp til laga um breytingu á tollalögum og fleiri lögum á vef Alþingis 


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum