Hoppa yfir valmynd

Frétt

5. nóvember 2019 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Átak í kynningu á námi í netöryggisfræðum fyrir íslenskt námsfólk

Dr. Katina Kralevska, dósent og aðstoðardeildarstjóri upplýsingaöryggis- og fjarskiptadeildar Norska tækniháskólans (NTNU) talar á kynningarfundi NTNU með stúdentum í Háskóla Íslands 1. nóvember sl. - mynd
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur undanfarin ár unnið að því að koma á samstarfi um netöryggisnám og rannsóknir á milli íslenskra háskóla og erlendra. Í tilefni af evrópska netöryggismánuðinum í október komu fulltrúar frá Norska tækniháskólanum, NTNU, til að ræða við stúdenta (einkum sem væru að ljúka grunnnámi í tölvunarfræði) um þá möguleika sem framhaldsnám við háskólann byði og hvernig það væri skipulagt. Ráðuneytið hefur haft tengsl við skólann um nokkurra ára skeið og fylgst með örri uppbyggingu á náminu og ýmiss konar aðstöðu vegna rannsókna og úttekta, þar má t.d. nefna eitt fullkomnasta netæfingasvæði Evrópu (e. cyber range), þar sem unnt er að setja upp eftirlíkingar af smáum sem stórum samtengdum tölvukerfum og kanna áhrif árása á þau. Þegar kerfið verður fullbúið á næsta ári verður unnt að setja upp flóknar alþjóðlegar æfingar á nokkrum dögum, sem venjulega tekur á annað ár að undirbúa. Stúdentar við skólann hafa m.a. komið að þróun og uppsetningu kerfisins. Netöryggisdeild skólans er einnig virk í alþjóðlegu rannsókna- og kennslusamstarfi.

Fulltrúar frá NTNU hafa áður komið til Íslands fyrir tilstuðlan ráðuneytisins, í febrúar 2018, og kynnt nám í netöryggisfræðum við skólann fyrir íslenskum háskólastúdentum og tillögunni um að senda fulltrúa nú var mjög vel tekið. Fimm fulltrúar komu frá skólanum og auk kynningar á fundi í samvinnu við Samtök atvinnulífsins, fim. 31. október, þáði Háskóli Íslands boð um kynningu fyrir stúdenta daginn eftir og viðræður um hugsanlegt áframhaldandi samstarf, sem getur verið með ýmsu móti. Ráðuneytið mun fylgjast með framgangi málsins. 

Fjölbreytt samstarf við erlenda háskóla
Einnig hefur ráðuneytið átt gott samstarf við Háskólann í Oxford sem vann að umsókn um stóran evrópskan styrk að tillögu ráðuneytisins fyrri hluta árs 2016, úttekt var gerð árið eftir á stöðu netöryggis hérlendis og fræðimaður frá háskólanum hélt fyrirlestra hér í boði ráðuneytisins fyrir rúmu ári og í upphafi þessa árs, í fyrra skiptið í samvinnu við Háskóla Íslands. Enn fremur hefur verið samvinna við vísindamenn frá MIT, Harvard og Stanford að frumkvæði ráðuneytisins til að bæta rannsóknagögn frá Íslandi og gott samstarf hefur verið við Fulbright-stofnunina og ýmsa fræðimenn sem hafa komið til Íslands á hennar vegum.

Í New York Times var nýlega fjallað um að alvarlegur skortur væri á sérfræðingum í netöryggisfræðum en áætlað er að það skorti fólk til að fylla í um 3,5 milljónir starfa árið 2021 og til að bæta gráu ofan á svart, hafi einungis um fjórðungur umsækjenda tilskylda hæfni og ástandið sé líklegt til að versna. Í alþjóðlegum úttektum á stöðu netöryggis hérlendis hefur verið á það bent að einn alvarlegasti vankantur hér sé skortur á netöryggismenntun og rannsóknum, slík menntun sé ekki í boði við íslenska háskóla sem grunnmenntun til B.S. prófs, framhaldsmenntun til M.S. prófs eða leiðsögn til doktorsprófs. 

Námskynning á Alþjóðadegi 
Í samvinnu við norska sendiráðið mun ráðuneytið fylgja kynningu NTNU eftir á Alþjóðadegi á Háskólatorgi, miðvikudaginn 6. nóvember kl. 11:30-13:30, og kynna nám netöryggisfræðum og strauma á því sviði, jafnframt því að kynnt verður hvernig nám við NTNU getur komið til móts við þessar þarfir. Dr. Sigurður Emil Pálsson (sigurdur.palsson (hjá) srn.is) getur veitt nánari upplýsingar um netöryggisnám almennt og það nám sem er í boði hjá Norska tækniháskólanum, auk þess sem þær slæður sem notaðar voru við kynningu skólans sl. föstudag eru fáanlegar hjá honum.
  • Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, opnar netæfingasvæðið formlega og að baki hennar er Nils Kalstad, deildarstjóri upplýsingaöryggis- og fjarskiptadeildar NTNU. - mynd
  • Dr. Sigurður Emil Pálsson á kynningu NTNU með íslensku námsfólki. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum