Hoppa yfir valmynd

Frétt

12. nóvember 2019 Heilbrigðisráðuneytið

Minnkum skaða

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra - myndHeilbrigðisráðuneytið

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra skrifar:

Hugmyndafræði skaðaminnkunar verður sífelld útbreiddari. Alþjóðlegu samtökin um skaðaminnkun hafa skilgreint skaðaminnkun sem stefnu, verkefni eða verklag sem miðar fyrst og fremst að því að draga úr heilsufarslegum, félagslegum og efnahagslegum afleiðingum notkunar löglegra og ólöglegra vímuefna án þess endilega að draga úr vímuefnanotkun. Það sem einkennir þessa leið er áherslan á að fyrirbyggja skaða fremur en að fyrirbyggja sjálfa notkunina. Þannig hefur skaðaminnkun sterka skírskotun til lýðheilsu og mannréttinda og þá nálgun að vinna skuli með þjónustuþegum án þess að dæma eða mismuna.       

Skaðaminnkandi aðgerðir eru til dæmis neyslurými, nálaskiptaþjónusta, húsnæði fyrir einstaklinga sem neyta ávana- og fíkniefna, varnir gegn ofskömmtunum og fræðsla um öruggari neyslu ávana- og fíkniefna. Þessar nálganir eiga það sameiginlegt að vera gagnreyndar og hafa jákvæð áhrif á heilsu einstaklinga og samfélagið í heild.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin og Evrópusambandið hafa talið neyslurými mikilvægan þátt í að draga úr ýmsum smitsjúkdómum og dauðsföllum vegna neyslu of stórra skammta. Þá hefur ávinningi vegna neyslurýma verið skipt í þrennt, þ.e. persónulegan ávinning fyrir þá sem neyta ávana- og fíkniefna í æð og þeirra nánustu, samfélagslegan ávinning sem sést best á umgengni á almenningsstöðum og loks fjárhagslegan ávinning sem felst aðallega í styttri legutíma á sjúkrahúsum, snemmbúnum inngripum og minni lyfjakostnaðar vegna meðferðar við HIV-smiti og lifrarbólgu C.

Ég hef nú lagt fyrir alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni nr. 64/1974 með síðari breytingum. Með frumvarpinu er lagt til að við lögin verði bætt ákvæði sem heimili stofnun og rekstur neyslurýma. Frumvarpið var fyrst lagt fram á 149. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga, og er nú lagt fram að nýju eftir að gerðar hafa verið breytingar á frumvarpinu í ljósi athugasemda sem bárust við vinnslu þess. Verði frumvarpið að lögum getur embætti landlæknis veitt sveitarfélagi leyfi til þess að stofna og reka neyslurými þar sem varsla og meðferð ávana- og fíkniefna, sbr. 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni, er heimil. Í neyslurými geta langt leiddir einstaklingar 18 ára og eldri neytt ávana- og fíkniefna í æð undir eftirliti starfsfólks þar sem gætt er fyllsta öryggis og sýkingavarna.

Samþykkt frumvarpsins væri mikilvægt og stórt skref í þá átt að innleiða hugmyndafræði skaðaminnkunar hér á landi, og myndi hafa jákvæð áhrif á líf og heilsu þeirra sem nota ávana- og fíkniefni, fjölskyldur þeirra, nærsamfélagið og samfélagið allt.

Grein heilbrigðisráðherra birtist í Morgunblaðinu 12. nóvember 2019

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum