Hoppa yfir valmynd

Frétt

15. nóvember 2019

Tveggja stoða kerfi EES-samningsins rætt á fjölsóttu málþingi í Brussel

Jóhanna Bryndís Bjarnadóttir sendifulltrúi á laga- og stjórnsýsluskrifstofu - mynd

Að frumkvæði Íslands, sem gegnir nú formennsku í EES/EFTA samstarfinu, var í dag haldið málþing í Brussel um tveggja stoða kerfi EES-samningsins. Tilefnið var meðal annars 25 ára afmæli samningsins.

Málþingið veitti innsýn í hvernig tekið hefur verið á tveggja stoða málefnum frá gildistöku samningsins þann 1. janúar 1994. Horft var til þess hvaða þættir samstarfsins hafa gengið vel, hvaða áskoranir hafa verið uppi og hvernig þær hafa verið leystar auk þess sem reynt var að horfa til þess hvernig tryggja má farsælar lausnir við framkvæmd samningsins í framtíðinni í þessu samhengi.

Í inngangsávarpi sínu benti Gunnar Pálsson, sendiherra Íslands gagnvart ESB, á að reynslan sýndi að treysta mætti á tveggja stoða kerfið – jafnvel þótt löggjöf sem tekin er upp í EES-samninginn hafi aukist gegnum árin. Hins vegar væri mikilvægt að halda umræðu um tveggja stoða kerfið lifandi, í ljósi mikilvægis þess fyrir Ísland og önnur aðildarríki.

Fyrirlesarar frá aðildarríkjunum Íslandi, Noregi og Liechtenstein litu yfir farinn veg í ávörpum sínum. Þar á meðal var Jóhanna Bryndís Bjarnadóttir frá laga- og stjórnsýsluskrifstofu utanríkisráðuneytisins, sem útskýrði aðstæður á Íslandi m.a. vegna stjórnarskrárinnar. Þá ræddi Susanne Hoeke frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins um þróun mála hjá sambandinu hvað varðar stofnanir þess. Gunnar Þór Pétursson, framkvæmdastjóri innri markaðsmála hjá ESA fór yfir eftirlitshlutverk stofnunarinnar og gaf innsýn í nokkur nýleg dæmi frá tveggja stoða vinklinum. Lagði hann áherslu á góða samvinnu milli stoðanna tveggja, líka þar sem ekki er gerð krafa um hana frá lagatæknilegum sjónarhóli.

Ólafur Jóhannes Einarsson, ritari EFTA-dómstólsins, setti sviðið varðandi viðfangsefnið í byrjun málþings og gaf yfirlit yfir nýlegar tveggja stoða lausnir, sem hann skipti upp í mismunandi flokka.

Erfitt er að draga saman niðurstöður slíks málþings í stuttu máli en óhætt er að segja að allir frummælendur hafi lýst mikilli tiltrú á tveggja stoða kerfi EES-samningsins og að það hafi staðist tímans tönn. Í ávarpi sínu í lok málþings ræddi sendiherra Noregs gagnvart ESB, Rolf Einar Fife, m.a. um mikilvægi gagnkvæms trausts í samskiptum EES/EFTA ríkjanna og Evrópusambandsins.

Hafdís Ólafsdóttir, fulltrúi forsætisráðuneytisins hjá fastanefnd Íslands gagnvart ESB, hafði veg og vanda af skipulagningu málþingsins. Áheyrendur komu víða að, bæði frá stofnunum ESB sem og fastanefndum og höfuðborgum EES-aðildarríkjanna. EFTA-skrifstofan sá um beint streymi frá viðburðinum.

  • Af málþingi um tveggja stoða kerfi EES-samningsins - mynd
  • Af málþingi um tveggja stoða kerfi EES-samningsins - mynd
  • Af málþingi um tveggja stoða kerfi EES-samningsins - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum