Hoppa yfir valmynd

Frétt

18. nóvember 2019 Heilbrigðisráðuneytið, Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Alþjóðleg vitundarvika um skynsamlega notkun sýklalyfja: Ísland verði leiðandi í að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmis

Stefnt er á að Ísland verði í fararbroddi í aðgerðum, til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmis, en í dag 18. nóvember 2019 hefst fimmta alþjóðlega vitundarvika Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) um skynsamlega notkun sýklalyfja, „Antibiotic Awareness Week “.

Auk þess er 18. nóvember sérstaklega helgaður vitundarvakningu um sýklalyfjanotkun af Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins (ECDC) .

Vikan á að minna almenning, stjórnvöld og heilbrigðisstarfsmenn á mikilvægi þess að nota sýklalyf skynsamlega og jafnframt að minna á þá ógn sem stafar af útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería.

Þó að sýklalyfjaónæmi sé minna á Íslandi en í mörgum öðrum löndum þá er mikilvægt að grípa til aðgerða á Íslandi sem hefta frekari útbreiðslu. Í febrúar 2019 undirrituðu  Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, yfirlýsingu um sameiginlegt átak til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería. Skipaður var stýrihópur um varnir gegn sýklalyfjaónæmi sem á að framfylgja tillögum starfshóps heilbrigðisráðherra frá árinu 2017.

Baráttan gegn sýklalyfjaónæmi er einnig liður í aðgerðaáætlun um matvælaöryggi og vernd búfjárstofna.  Átak til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería á Íslandi er hafið og er vinnan í fullum gangi.

Á meðal verkefna sem tilheyra átakinu má nefna:

  • Vinna tveggja starfshópa er í fullum gangi.
  • Stofnun Sýklalyfjaónæmissjóðs er langt á veg komin en honum er m.a. ætlað að tryggja fjármögnun vegna skimunar og vöktun á sýklalyfjaþoli í dýrum, matvælum, fóðri, áburði og sáðvöru. Auk þess er honum ætlað að fjármagna vísindarannsóknir/grunnrannsóknir.
  • Verkefni hjá Matvælastofnun, Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum og Embætti landlæknis í tengslum við varnir gegn sýklalyfjaónæmi.
  • Unnið er að því að uppfæra gagnagrunninn HEILSU sem geymir upplýsingar um sjúkdómsgreiningar og lyfjameðhöndlun dýra. Mikilvægt að gagnagrunnurinn verði gerður notendavænni og nái til fleiri dýrategunda en hrossa og nautgripa líkt og er í dag.
 

Hér má nálgast umfjöllun Landlæknis

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

14. Líf í vatni
15. Líf á landi

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum