Hoppa yfir valmynd

Frétt

30. nóvember 2019 Heilbrigðisráðuneytið

Fjölbreytt þjónusta við aldraða

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra - myndHeilbrigðisráðuneyti

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra skrifar:

Árið 2019 voru 14% Íslendinga 65 ára og eldri, samanborið við 10% Íslendinga árið 1980. Spár Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, gera ráð fyrir því að árið 2050 verði 25% Íslendinga 65 ára og eldri. Hækkandi hlutfall aldraðra felur í sér áskoranir fyrir heilbrigðiskerfið, en líka tækifæri til þess að hugsa hlutina upp á nýtt, gera betur og breyta.

Þörf fyrir fleiri hjúkrunarrými á landsvísu er veruleg. Ég kynnti í apríl 2018 áætlun um stórsókn í uppbyggingu hjúkrunarrýma á landsvísu, en áætlunin tók til uppbyggingar og endurbóta á tæplega 800  hjúkrunarrýmum til ársins 2023. Á þessu ári hefur verið tekið í notkun nýtt 40 rýma hjúkrunarheimili á Seltjarnarnesi og hjúkrunarheimili með 60 rýmum notkun 99 rýma hjúkrunarheimili við Sléttuveg í Reykjavík, auk þess sem bygging 60 rýma hjúkrunarheimilis í Árborg er hafin. Samkvæmt samantekt Embættis landlæknis frá því í september á þessu ári hefur fjölgun hjúkrunarrýma á höfuðborgarsvæðinu þegar leitt til þess að biðlistar hafa styst. Áfram verður unnið að uppbyggingu hjúkrunarrýma á kjörtímabilinu.

Mikilvægt er að huga að fjölbreytni í þjónustu og auka möguleika fólks til að búa lengur heima, ef það kýs. Í því skyni hefur dagdvalarrýmum verið fjölgað markvisst með áherslu á þjálfun og aukna þjónustu við fólk sem býr í heimahúsum. Sem dæmi má nefna að árið 2019 var opnuð á Hrafnistu sérhæfð dagdvöl ætluð heilabiluðum með aðstöðu fyrir 30 einstaklinga, sérhæfðum dagdvalarrýmum í MS-setrinu var fjölgað um 6 og Hafnarfjarðarbæ var veitt rekstrarheimild fyrir 12 nýjum dagdvalarrýmum fyrir fólk með heilabilun. Ákvörðun var einnig tekin um að koma á fót fjórum endurhæfingarrýmum við Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Sauðárkróki með áherslu á endurhæfingu fyrir aldraða.

130 milljónir króna af fjárlögum ársins 2019 verða nýttar til að styrkja mönnun í heimahjúkrun og auka þjónustuna, auk þess sem ég hef ákveðið að ráðstafa 200 milljónum króna af fjárlögum næsta árs til að koma á fót heilsueflandi móttökum um allt land innan heilsugæslunnar. Móttökurnar verða ætlaðar eldra fólki og einstaklingum með fjölþætt eða langvinn heilsufarsvandamál og markmið þeirra er að tryggja þessum hópi þverfaglega og heildstæða heilbrigðisþjónustu og innleiða skipulagða heilsuvernd fyrir aldraða. Þessu tengt hef ég ákveðið að stofna sérstaka verkefnahópa um heilsueflingu aldraðra, heimahjúkrun og hjúkrunarheimili og sveigjanlega dagdvöl.

Með aukinni þjónustu heim og fjölgun hjúkrunar- og dagdvalarrýma er komið til móts við vaxandi þörf fyrir þjónustu við aldraða. Þetta er mikilvægur liður í því að tryggja rétta þjónustu á réttum stað í samræmi við heilbrigðisstefnu til ársins 2030.

Grein heilbrigðisráðherra birtist í Morgunblaðinu 30. nóvember 2019.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum