Hoppa yfir valmynd

Frétt

3. desember 2019 Innviðaráðuneytið

Mikilvægt að hlusta á ungt fólk í umræðum um loftslagsmál

Sigurður Ingi Jóhannsson, samstarfsráðherra Norðurlanda, tók þátt í málþingi á Norrænum loftslagsaðgerðadögum í Stokkhólmi sem haldnir eru samhliða loftslagsráðstefnu SÞ. - myndMoa Karlberg/norden.org

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og samstarfsráðherra Norðurlandanna, tók þátt í málþingi um loftslagsmál í gær með ungu fólki á norrænum loftslagsaðgerðadögum í Stokkhólmi, sem haldnir verða dagana 2.-13. desember samhliða loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna (COP 25) í Madrid. Markmiðið með viðburðunum er að veita eins konar sýndarbakdyr að COP25 og fylgjast með viðræðum í Madrid.

Tilgangurinn með málþinginu í gær var að eiga samtal við ungt fólk á Norðurlöndum um þær væntingar sem þau hafa til stjórnmálafólks í loftslagsmálum og til COP25. Fulltrúar stjórnmálanna voru, auk Sigurðar Inga, Isabella Lövin, ráðherra umhverfis- og loftslagsmála í Svíþjóð og Marjo Nummelin, loftslagssérfræðingur í Finnlandi. Sú síðarnefnda var stödd í Madrid ásamt ungmennum frá Nepal og Ungverjalandi sem tóku virkan þátt í umræðum í beinni útsendingu frá COP25. Ungmennin hafa öll tekið virkan þátt í vinnu í þágu loftslagsmála í heimalöndum sínu og þau lögðu fram sínar óskir við ráðherrana um að vinna að framtíðarlausnum á loftslagsvandanum.

Rætt var um mikilvægi þess að hraða lausnum sem draga úr losun eins og orkuskiptum í samgöngum og mælingum á kolefnisspori sem gæti aukið gagnsæi á vörum og þjónustu svo dæmi séu tekin.

Í máli Sigurðar Inga kom fram að lausnir þurfi að miða að sjálfbærni. „Loftslagsmálin verða ekki leyst nema með samvinnu allra, þar sem allir leggjast á eitt með það að markmiði að draga úr losun og binda kolefni. Þetta snýst ekki einungis um tækni, heldur um breytta hegðun í okkar fari, stjórnvalda, sveitarfélaga, fyrirtækja og einstaklinga. Framtíðarsýn Norðurlandanna er að vera sjálfbærasta og samþættasta svæði heims. Til að ná árangri verða allir að vera með. Þessa vegna er mikilvægt að rödd unga fólksins heyrist.“

 
  • Þátttakendur á málþinginu voru bæði í Stokkhólmi og í beinni útsendingu frá Madrid. - mynd
  • Sigurður Ingi Jóhannsson, samstarfsráðherra Norðurlanda, tók þátt í málþingi á Norrænum loftslagsaðgerðadögum í Stokkhólmi sem haldnir eru samhliða loftslagsráðstefnu SÞ. - mynd
  • Ungt fólk og ráðherrar frá Norðurlöndum tóku þátt í umræðum á málþinginu. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum