Hoppa yfir valmynd

Frétt

14. desember 2019 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Hagstæð aldurssamsetning skýrir lægri útgjöld til heilbrigðismála

Framlög til heilbrigðismála hafa hækkað verulega á Íslandi síðustu ár. Frá því að núverandi ríkisstjórn tók við hafa þau fengið meira vægi og vaxið um rúmlega 28% frá árinu 2017. Íslenska þjóðin er ung í alþjóðlegum samanburði, sem hefur í för með sér að útgjaldabyrði vegna heilbrigðismála er minni hér á landi en í nágrannalöndunum.

Samanburður við ríki OECD – aldurssamsetning skýrir lægri útgjöld

Að undanförnu hefur verið fjallað um nýlega úttekt OECD á útgjöldum til heilbrigðismála. Samkvæmt henni vörðu Íslendingar 8,3% af VLF til heilbrigðismála árið 2018, en ríki innan OECD verja að meðaltali 8,8% af VLF til heilbrigðismála. Þá er vert að hafa í huga að tölur OECD taka jafnt til opinberrar og einkarekinnar þjónustu ásamt forvörnum en ná ekki yfir útgjöld til fjárfestinga, svo sem byggingar nýs Landspítala og uppbyggingar hjúkrunarheimila.

Aldurssamsetning þjóða er meðal þeirra þátta sem hafa mikil áhrif á útgjöld til heilbrigðismála. Heilbrigðisútgjöld eru að jafnaði lægri meðal yngri þjóða. Íslenska þjóðin er ung í alþjóðlegum samanburði og aldurssamsetning þjóðarinnar er einnig mjög hagfelld í samanburði við Norðurlöndin.

 

Svíþjóð og Finnland skera sig úr í þeim samanburði og eru mun eldri en hinar Norðurlandaþjóðirnar. Ef gert er ráð fyrir óbreyttu heilbrigðiskerfi en aldurssamsetningu eins og annars staðar á Norðurlöndunum hækkar hlutfall heilbrigðisútgjalda af landsframleiðslu úr 8,3% í 9,7%. Þau væru þá vel ofan við meðaltal ríkja OECD og mun nær Norðurlöndunum.

 

667 þúsund krónur til heilbrigðismála á mann

Á næsta ári er gert ráð fyrir að útgjöld til heilbrigðismála á mann verði að meðaltali um 667 þúsund krónur og að samtals nemi útgjöldin tæplega 245 ma.kr. (að undanskilinni fjárfestingu). Þannig hafa framlög til reksturs heilbrigðiskerfsins aukist um rúmlega 28% að nafnvirði í tíð núverandi ríkisstjórnar.

 

Meðal verkefna sem lögð hefur verið áhersla á þessum tíma, auk verulega aukinna framlaga til reksturs, eru bygging nýs Landspítala, uppbygging hjúkrunarrýma, framlög til heilsugæslu og geðheilbrigðisþjónustu auk innleiðingar nýrra sérhæfðra lyfja. Þá hefur verið unnið markvisst að því að minnka greiðsluþátttöku aldraðra og öryrkja fyrir heilbrigðisþjónustu.

 

Heilbrigðis-, félags-, húsnæðis- og tryggingamál eru umfangsmest í rekstri ríkisins. Af hverjum 10 krónum fara 6 til velferðarmála. Þá skiptir miklu hvernig þessum fjármunum er varið og má í því sambandi benda á að íslenska heilbrigðiskerfið skipar sér jafnan á meðal þeirra bestu í alþjóðlegum samanburði.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum