Hoppa yfir valmynd

Frétt

20. desember 2019 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Lýsing vinnu við landsáætlun í skógrækt í samráðsgátt

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur kynnt í samráðsgátt stjórnvalda drög að lýsingu á þeim áherslum sem verða í forgrunni vinnu við gerð landsáætlunar í skógrækt. Lýsingin var unnin af verkefnisstjórn sem umhverfis- og auðlindaráðherra skipaði í sumar.

Í landsáætlun í skógrækt verður m.a. mótuð framtíðarsýn fyrir skógrækt til langs tíma, markmið verða skilgreind og aðgerðaáætlun sett fram þar sem mælikvarðar á árangur verða skilgreindir. Í áætluninni skal gera grein fyrir:

  • forsendum fyrir vali á landi til skógræktar með tilliti til náttúruverndar, minjaverndar og landslags,
  • vernd og endurheimt náttúruskóga,
  • ræktun skóga til uppbyggingar skógarauðlindar og umfangi og horfum hvað varðar nýtingu,
  • sjálfbærri nýtingu skóga,
  • áhrifum skógræktar á atvinnuþróun og byggð,
  • aðgengi fólks að skógum til útivistar,
  • skógrækt í samhengi við líffræðilega fjölbreytni,
  • skógrækt í samhengi við loftslagsbreytingar,
  • öflun þekkingar á skógum og skógrækt og miðlun hennar,
  • eftirliti með ástandi og nýtingu skóga,
  • eldvörnum og öryggismálum.

Sérstök áhersla verður lögð á að fjallað sé um endurheimt náttúruskóga á stórum samfelldum svæðum og skógrækt í samhengi loftslagsmála og líffræðilegrar fjölbreytni, fjallað verður um notkun tegunda í skógrækt svo tryggt sé að ekki verði notaðar ágengar framandi tegundir sem numið geta land og dreift sér. Þá verður sérstaklega skoðað hvernig auka megi þátttöku einstaklinga, félagasamtaka, sjálfboðaliða o.fl. í skógræktarstarfinu og hvernig útfæra megi samstarf einkaaðila og ríkisins. 

Umsögnum um lýsingu vinnu við landsáætlun í skógrækt skal skilað í samráðsgátt stjórnvalda og er frestur til þess til 31. janúar næstkomandi.

Landsáætlun í skógrækt - drög að lýsingu í samráðsgátt stjórnvalda


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum