Hoppa yfir valmynd

Frétt

5. febrúar 2020 Heilbrigðisráðuneytið

Félagasamtökum úthlutað 95 m.kr. til verkefna á sviði heilbrigðisþjónustu

Frá úthlutun styrkja til félagasamtaka - myndMynd: Heilbrigðisráðuneyti -/ME

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra úthlutaði í gær 95 milljónum króna af safnliðum fjárlaga til félagasamtaka sem starfa að heilbrigðismálum. Að þessu sinni var áhersla lögð á verkefni tengd heilsueflingu aldraðra og kvennaheilsu. Alls hlutu 27 félagasamtök styrki til 32. aðskilinna verkefna sem miða að því að veita einstaklingum eða hópum stuðning, fræðslu og ráðgjöf.

„Frjáls félagasamtök sinna daglega gríðarlega mikilvægu starfi í þágu samfélagsins. Styrkirnir sem veittir eru hér í dag eru í senn viðurkenning á því starfi og fjárframlag til að styðja við þá mikilvægu starfsemi sem frjáls félagasamtök sinna í þágu heilbrigðisþjónustunnar“ sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra við afhendingu styrkjanna á Hótel Natura í gær.

Hæstu styrkina að þessu sinni hlutu Rauði krossinn á Íslandi fyrir skaðaminnkunarverkefnið Frú Ragnheiði, alls níu milljónir króna. ADHD samtökin hlutu sjö milljónir króna fyrir verkefnið Betra líf með ADHD, Pieta samtökin fengu einnig sjö milljóna króna styrk vegna þjónustu og stuðnings við fólk sem þjáist af sjálfsvígshugsunum og sjálfskaða, Hjartaheill, landssamtök hjartasjúklinga hlutu sjö milljónir króna til fræðslu, ráðgjafar og forvarna og Geðhjálp sjö milljónir króna fyrir fræðsluverkefnið Tíuna – Útmeða.

Af fleiri úthlutunum má til dæmis nefna styrk til Rótarinnar vegna nýsköpunarverkefnis til að efla tengslanet félagsins og samstar við aðra aðila sem vinna með jaðarsettum konum , þolendum ofbeldis og konum með sögu um vímuefnavanda og áföll. Parkonsonsamtökin fá styrk sem m.a. verður varið í að uppfæra fræðsluefni um sjúkdóminn og Alzheimersamtökin fá styrk til að efla starf sitt en markmið þeirra er að stuðla að bættri þjónustu við fólk með heilabilunarsjúkdóma og veita því og aðstandendum þess öfluga ráðgjöf. Þá fær Rauði krossinn á Íslandi styrk fyrir hjálparsímann 1717. Árlega hringja um 3000 aldraðir í hjálparsímann til að fá ráðgjöf og upplýsingar en einnig til þess að spjalla sem er mikilvægur þáttur í því að draga úr félagslegri einangrun og einmanaleika.

Eins og áður segir voru veittir styrkir til 32. verkefna. Meðfylgjandi er yfirlit um öll verkefnin sem hlutu styrk og fjárhæðirnar.

 

  •   - mynd
  • Frá úthlutun styrkja til félagasamtaka - mynd
  • Frá úthlutun styrkja til félagasamtaka - mynd
  • Frá úthlutun styrkja til félagasamtaka - mynd
  • Félagasamtökum úthlutað 95 m.kr. til verkefna á sviði heilbrigðisþjónustu - mynd úr myndasafni númer 5

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum