Hoppa yfir valmynd

Frétt

10. febrúar 2020 Heilbrigðisráðuneytið

Sjúklingar borga minna

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra - myndHeilbrigðisráðuneytið

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra skrifar:

Minnkun greiðsluþátttöku sjúklinga er eitt af þeim atriðum sem ég hef sett í sérstakan forgang í embætti heilbrigðisráðherra. Í fjármálaáætlun stjórnvalda til ársins 2024 eru 3,5 milljarðar króna sérstaklega ætlaðir til að draga úr kostnaði sjúklinga vegna heilbrigðisþjónustu og auka á móti framlög hins opinbera. Fyrir áramót kynnti ég áform um ráðstöfun 1,1 milljarðs króna af þeirri upphæð til að minnka greiðsluþátttöku sjúklinga á næstu tveimur árum.

Við höfum nú þegar minnkað greiðsluþátttöku öryrkja og lífeyrisþega í tannlæknakostnaði og fellt niður komugjöld fyrir öryrkja og aldraða á heilsugæslur og hjá heimilislæknum.

Á næstu tveimur árum verða komugjöld í heilsugæslu felld niður í áföngum, niðurgreiðslur sjúkratrygginga fyrir tannlæknisþjónustu, lyf og tiltekin hjálpartæki verða auknar og reglur um niðurgreiðslur ferðakostnaðar verða rýmkaðar.

Hluti aðgerðanna kom til framkvæmda strax um nýliðin áramót, og hefur því þegar tekið gildi. Fyrsta skrefið í því að fella niður komugjöld í heilsugæslu var stigið 1. janúar 2020, þegar almenn komugjöld í heilsugæslu lækkuðu úr 1.200 krónum í 700 krónur. Þetta á við um komur fólks á dagvinnutíma á heilsugæslustöð þar sem viðkomandi er skráður. Börn, aldraðir og öryrkjar greiða eftir sem áður ekki komugjöld í heilsugæslu.

Hinn 1. janúar síðastliðinn voru hormónatengdar getnaðarvarnir felldar undir lyfjagreiðsluþátttökukerfið fyrir konur sem eru 20 ára eða yngri og öllum börnum sem fæðast með skarð í efri tannboga eða með klofinn góm var með reglugerð tryggður réttur til endurgreiðslu vegna tannlækninga og tannréttinga sem nemur 95% af gjaldskrá tannlæknis.

Ný reglugerð um ferðakostnað sjúkratryggðra og aðstandenda þeirra innanlands tók líka gildi í byrjun árs. Með reglugerðinni verður m.a. komið til móts við þá sem þurfa reglulega að ferðast um lengri veg vegna blóðskilunar og enn fremur er það nýmæli að greitt verður fargjald fylgdarmanns konu sem þarf að takast ferðalag á hendur til að fæða barn á heilbrigðisstofnun eða sjúkrahúsi.

Fram undan eru enn frekari aðgerðir til að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga á ýmsum sviðum heilbrigðisþjónustunnar.

Þessar breytingar eru mikilvæg skref í átt að því marki að greiðsluþátttaka sjúklinga í heilbrigðisþjónustu verði á pari við það sem best gerist á Norðurlöndunum. Enginn ætti að þurfa að neita sér um nauðsynlega heilbrigðisþjónustu. Minnkun greiðsluþátttöku sjúklinga er afgerandi þáttur í því að jafna aðgengi fólks að þjónustu heilbrigðiskerfisins og sporna við heilsufarslegum ójöfnuði af félagslegum og fjárhagslegum ástæðum.

Grein heilbrigðisráðherra birtist í Morgunblaðinu 8. febrúar 2020

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum