Hoppa yfir valmynd

Frétt

27. mars 2020 Heilbrigðisráðuneytið

Aðgengi að heilbrigðisþjónustu bætt með stafrænum lausnum

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra - myndHeilbrigðisráðuneyti

Sjúkratryggingar Íslands hafa gefið út gjaldskrá fyrir fjarþjónustu sérgreinalækna sem starfa á stofum utan sjúkrahúsa, ásamt upplýsingum um skilyrði sem slík þjónusta þarf að uppfylla. Þetta er liður í því að bæta aðgengi sjúklinga að heilbrigðisþjónustu við þær aðstæður sem nú ríkja vegna COVID-19. Sjúkratryggingar munu endurgreiða sjúklingum fyrir þjónustu sérgreinalækna vegna fjarheilbrigðisþjónustu, þegar það hentar sjúklingi og þegar skilyrði um slíka þjónustu eru uppfyllt, s.s. fyrirmæli landlæknis um upplýsingaöryggi við veitingu fjarheilbrigðisþjónustu.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir þær krefjandi aðstæður sem skapast hafa vegna kórónaveirufaraldursins kalla á nýjar lausnir, sveigjanleika og skjót vinnubrögð. „Við höfum verið að feta okkur áfram í þessa átt, t.d. með samstarfi Landspítala og heilbrigðisstofnana úti á landi um veitingu fjarheilbrigðisþjónustu, ekki síst til að bæta aðgengi fólks á landsbyggðinni að sérfræðiþjónustu.“ Sem dæmi um þetta má nefna samstarf Landspítala og Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða um geðheilbrigðisþjónustu við íbúa í umdæminu.

Mikil tækifæri fyrir hendi

Ráðherra bendir á að það séu mikil tækifæri fyrir hendi í þróun og hagnýtingu lausna á sviði fjarheilbrigðisþjónustu og ljóst að upplýsingatækni og stafrænar lausnir muni gegna lykilhlutverki í þróun heilbrigðiskerfisins á komandi árum, líkt og fjallað sé um í heilbrigðisstefnu til ársins 2030.  Eins og þar komi fram feli smæð íslenska heilbrigðiskerfisins, mikið tæknilæsi landsmanna og sú uppbygging innviða í þágu upplýsingatækni sem hefur átt sér stað í sér óteljandi tækifæri til að bæta gæði og skilvirkni heilbrigðisþjónustunnar. „Við núverandi aðstæður eigum við að leggja kapp á að nýta og þróa lausnir á þessu sviði. Það er mjög nauðsynlegt núna og það mun gagnast okkur vel inn í framtíðina“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum