Hoppa yfir valmynd

Frétt

20. apríl 2020 Heilbrigðisráðuneytið

Tillögur að endurhæfingarstefnu kynntar og birtar í samráðsgátt

Frá afhendingu skýrslu sérfræðinga með tillögu að endurhæfingarstefnu - myndMynd: Heilbrigðisráðuneyti

Sérfræðingar í endurhæfingarmálum sem Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra fól að móta tillögur að endurhæfingarstefnu hafa skilað ráðherra skýrslu með niðurstöðum sínum. Ráðherra segir skýra stefnu fyrir þennan mikilvæga og vaxandi þátt heilbrigðisþjónustunnar bráðnauðsynlega og því mikið fagnaðarefni að fá skýrsluna í hendur. Skýrslan hefur nú verið birt til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda og er umsagnarfrestur til 20. maí.

Verkefni sérfræðinganna, þeirra Guðrúnar Sigurjónsdóttur sjúkraþjálfara og Hans Jakobs Beck læknis,  var viðamikið. Meðal annars var þeim falið að kortleggja endurhæfingarþjónustu í landinu, greina styrkleika og veikleika í skipulagi þjónustunnar og benda á leiðir til að bæta nýtingu þeirra endurhæfingarúrræða sem eru fyrir hendi

Aðgerðaáætlun til fimm ára

Eitt af fyrstu viðfangsefnum sérfræðinganna fólst í því að skilgreina hvað endurhæfing felur í sér, en hingað til hefur engin opinber skilgreining á því verið fyrir hendi. Jafnframt setja þau fram tillögu að stigskiptingu endurhæfingarþjónustu eftir eðli hennar og umfangi. Lagt er til að endurhæfing verði hluti af heilbrigðisþjónustu á öllum stigum, þar með talið heilsugæslu en skýrslunni fylgir aðgerðaáætlun til fimm ára. Þar er meðal annars lagt til að;

  • Endurhæfingarhugtakið og stig endurhæfingar verði skilgreind í reglugerð.
  • Endurhæfingarteymum í heilsugæslu verði komið á fót í öllum heilbrigðisumdæmum.
  • Tekið verði í notkun staðlað matstæki, byggt á alþjóðlegu flokkunarkerfi um færni, fötlun og heilsu.
  • Sett verði á fót samþætt tilvísanakerfi fyrir endurhæfingu í heilbrigðiskerfinu og úrræði vinnumálakerfisins.
  • Skýrar faglegar kröfur verði skilgreindar við kaup á endurhæfingarþjónustu.
  • Í stað margra ótengdra biðlista verði einn miðlægur biðlisti fyrir þá sem bíða eftir innlögn á endurhæfingarstofnun.
  • Sett verði á fót endurhæfingarmiðstöð fyrir börn sem þjóni landinu öllu.
  • Endurhæfing fyrir aldrað fólk í kjölfar bráðra veikinda verði efld.
  • Komið verði á þverfaglegu diplómanámi í endurhæfingu,
  • …. o.m.fl.

Efni og framsetning skýrslunnar tekur mið af heilbrigðisstefnu til ársins 2030 sem samþykkt var á Alþingi í júní síðastliðnum. Þannig er sérstaklega horft til forystu og stjórnunar, að allt skipulag miði að því að veita rétta þjónustu á réttum stað, að virkja sem best notendur þjónustunnar til að ná settum markmiðum, að gæði þjónustu séu í fyrirrúmi og að þjónustukaup, fjármögnun og rekstur endurhæfingarþjónustu stuðli að sem mestri skilvirkni.

Mikil vinna við upplýsingaöflun liggur að baki meðfylgjandi skýrslu og viðamikið samráð þar sem m.a. var fundað með fulltrúum allra opinberra heilbrigðisstofnana, annarra stofnana og fyrirtækja sem veita endurhæfingu, félögum notenda endurhæfingarþjónustu og þeirra heilbrigðisstétta sem stærstu hlutverki gegna í endurhæfingu.

  • Guðrún Sigurjóndsdóttir - mynd
  • Hans Jakob Beck - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum