Hoppa yfir valmynd

Frétt

8. maí 2020 Forsætisráðuneytið

21. fundur um stjórnarskrármál

21. fundur – haldinn föstudaginn 8. maí 2020, kl. 12:00-15:00, í Safnahúsinu að Hverfisgötu.

Fundargerð

Mætt eru: Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra (VG), Bjarni Benediktsson (Sjálfstæðisflokki), Helgi Hrafn Gunnarsson (Pírötum), Logi Einarsson (Samfylkingu), Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (Miðflokki), Sigurður Ingi Jóhannsson (Framsóknarflokki) og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (Viðreisn). Inga Sæland (Flokki fólksins) var á fundinum gegnum fjarfundabúnað.

Þá situr fundinn Unnur Brá Konráðsdóttir, verkefnisstjóri stjórnarskrárendurskoðunar, og Oddur Þorri Viðarsson, lögfræðingur, sem ritar fundargerð. Gestir fundarins eru Björg Thorarensen, Skúli Magnússon, Páll Þórhallsson, Ólafur Þ. Harðarson og Ólafur Ragnar Grímsson (4. liður).

1. Fundargerð síðasta fundar og framhald vinnunnar

 

Fundargerð síðasta fundar er samþykkt.

 

Forsætisráðherra ræðir um framhald vinnunnar og kallar eftir sjónarmiðum um forgangsröðun.

 

Af hálfu Loga Einarssonar og Helga Hrafns Gunnarssonar kemur fram að brýnt sé að ljúka vinnu við breytingarákvæði. UBK upplýsir áætlað sé að málið verði á dagskrá næsta fundar.

Af hálfu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur kemur fram að brýnt sé að horfa til niðurstöðu rökræðufundarins um stjórnarskrármálefni en þátttakendur töldu mikla þörf á að endurskoða ákvæði stjórnarskrár sem varða jöfnun atkvæðisréttar. Ýmsir tóku undir þessa skoðun en aðrir mæltu henni mót. Forsætisráðherra leggur til að lagt verði fram stutt minnisblað um hvað fram kom um þetta málefni í viðhorfskönnun félagsvísindastofnunnar og niðurstöðum rökræðufundar í tengslum við stjórnarskrárvinnuna. Jafnframt verði fjallað um minnisblað Ólafs Þ. Harðarsonar um málefnið á næsta fundi.

 

2. Þjóðaratkvæðagreiðslur, drög að frumvarpi

 

Í umræðum um frumvarp um þjóðaratkvæðagreiðslur er rætt um að málið væri efnislega statt á sama stað og síðast. Gerðar hafa verið athugasemdir við ýmis atriði, svo sem þröskulda. Í umræðum koma annars vegar fram sjónarmið um að þröskuldar eigi að vera lægri eða engir og hins vegar að þröskulda megi ekki lækka. Rædd eru sjónarmið um synjunarvald forseta samhliða nýjum reglum um þjóðaratkvæðagreiðslur sem og þörf á því að afmarka frekar hvaða þingsályktunartillögum ætti að vera hægt að vísa til þjóðarinnar.

 

 

3. Íslensk tunga, drög að frumvarpi

 

Ákveðið er að frumvarpið verði sett í opið samráð á samráðsgátt með eftirfarandifyrirvara:

 

„Formenn þeirra flokka sem nú sitja á Alþingi hafa átt fundi frá upphafi árs 2018 um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Þar hafa ýmis ákvæði komið til skoðunar. Vinna við þetta frumvarp sem hér er birt til samráðs er nú komin það langt áleiðis að rétt er að leita álits og athugasemda frá almenningi um efni þess í samráðsgátt stjórnvalda.

Áréttað er að birting í samráðsgátt á þessu stigi felur ekki í sér skuldbindingu af hálfu formanna flokkanna til að standa að framlagningu frumvarpanna í þessari mynd á Alþingi.“

 

 

4. Forseti og framkvæmdavald, gestir

 

Gestir fundarins, Björg Thorarensen, Skúli Magnússon, Páll Þórhallsson og Ólafur Þ. Harðarson fara yfir sjónarmið varðandi frumvarpið og svara spurningum formanna. Öll tóku saman skrifleg minnisblöð fyrir fundinn og er þeim dreift. Björg, Skúli, Páll og Ólafur Þ. víkja af fundi kl. 14:10.

 

Ólafur Ragnar Grímsson kemur til fundar kl. 14:15. Ólafur fer yfir sjónarmið um forsetaembættið og svarar spurningum formanna.

5. Umhverfisákvæði og auðlindaákvæði

 

Skýrslur um yfirferð umsagna af samráðsgátt lagðar fram.

 

6. Önnur mál

 

Ákveðið að stefna að næsta fundi í lok maí.

Fleira ekki rætt.

Fundi slitið kl. 15:00.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum