Hoppa yfir valmynd

Frétt

8. maí 2020 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Ísland ljóstengt: Aukaúthlutun 2020 og áhugi kannaður vegna lokaúthlutunar 2021

Ísland ljóstengt er tímabundið landsátak stjórnvalda í ljósleiðarauppbyggingu í dreifbýli utan markaðssvæða. Árið 2021 verður síðasta verkefnisárið í Ísland ljóstengt verkefninu. Fjarskiptasjóður undirbýr nú fyrir hönd ríkisins lokaúthlutanir á styrkjum til sveitarfélaga á grundvelli verkefnisins.

Annars vegar er um að ræða aukaúthlutun á fjármunum vegna ljósleiðaraframkvæmda sem verða að hefjast fyrir 1. september 2020 og vera lokið 1. apríl 2021 og hins vegar áhugakönnun vegna lokaúthlutunar á næsta ári.

Aukaúthlutun vegna Ísland ljóstengt 2020

Nýverið var samþykkt 400 milljóna kr. viðbótarfjárveiting til framkvæmda við ljósleiðaravæðingu í dreifbýli á vegum Ísland ljóstengt á þessu ári. Fjárveitingin er liður í fjárfestingarátaki stjórnvalda til að sporna gegn samdrætti í hagkerfinu í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru. Markmiðið er sem fyrr að nær öll heimili og fyrirtæki í dreifbýli hafi aðgang að ljósleiðaratengingu og að því verkefni ljúki árið 2021.
Fjarskiptasjóður hyggst úthluta viðbótar fjármunum til ljósleiðaraframkvæmda sveitarfélaga í dreifbýli á þessu ári í samræmi við skilyrði um viðbótarfjárveitinguna. Samningar þar að lútandi verða undirritaðir 11. júní nk. ef svo ber undir.

Þessi aukaúthlutun er einkum hugsuð vegna styrkhæfra staða sem eftir eru í sveitarfélögum sem þegar uppfylla tilteknar formkröfur frá fyrri úthlutunum í verkefninu Ísland ljóstengt. Öllum sveitarfélögum, sem hyggja á ljósleiðaravæðingu, er þó heimilt að senda umsókn.

Umsóknir sveitarfélaga um aukaúthlutun vegna Ísland ljóstengt 2020 þurfa að berast á netfangið [email protected] fyrir lok þriðjudags 2. júní nk.

Gengið er út frá því að verkefni sem ekki hljóta styrk í aukaúthlutun árinu 2020 komi til álita að hljóta styrk árið 2021.

Áhugakönnun vegna lokaúthlutunar Ísland ljóstengt 2021

Undirbúningur vegna lokaúthlutunar fjarskiptasjóðs á styrkjum til sveitarfélaga á grundvelli Ísland ljóstengt 2021 hefst að óbreyttu síðar á þessu ári. Sjóðurinn vill kanna áhuga sveitarfélaga á þátttöku í fyrirhugaðri lokaúthlutun, ekki síst hjá sveitarfélögum sem hafa enn ekki tekið þátt í verkefninu. Tilkynningar í þá veru eru þó ekki skuldbindandi.

Tilkynningar sveitarfélaga um áhuga á þátttöku í lokaúthlutun Ísland ljóstengt 2021 þurfa að berast á netfangið [email protected] fyrir lok þriðjudags 2. júní nk.

Nánar um aukaúthlutun Ísland ljóstengt 2020

Fjarskiptasjóður hefur gefið umsækjendum góðan tíma á liðnum árum til þess að vinna umsóknir vegna Ísland ljóstengt. Fyrirliggjandi tímarammi gefur á hinn bóginn ekki kost á sambærilegum undirbúningstíma. Svo vill þó til að allflest sveitarfélög á landinu hafa áður unnið og sent fjarskiptasjóði stóran hluta af þeim gögnum sem sjóðurinn telur forsendu samninga. Af þeim sökum á það að vera tiltölulega einfalt fyrir sveitarfélög sem áður hafa hlotið styrk vegna Ísland ljóstengt, að undirbúa umbeðin gögn innan tilskilins tímafrests. Þau sveitarfélög sem hins vegar hafa ekki hlotið styrk áður hjá sjóðnum á grundvelli verkefnisins, eiga eðli málsins samkvæmt erfiðara með að vinna umbeðin gögn á viðunandi hátt vegna aukaúthlutunar árið 2020. Fjarskiptasjóður telur þó ekki ástæðu til þess að útiloka þátttöku þeirra. 

Fjarskiptasjóður áskilur sér rétt til þess að nota mögulega aðrar valaðferðir en áður og mun því meta og taka sjálfstæða afstöðu til hverrar umsóknar. Fjarskiptasjóður mun fylgjast sérstaklega með efndum þeirra sveitarfélaga sem semja um aukaúthlutun í ár, með hliðsjón af skýrum vilja ríkisstjórnarinnar um viðbótarfjármagn verði nýtt til framkvæmda á árinu.

Markmið Ísland ljóstengt

Markmið stjórnvalda með verkefninu Ísland ljóstengt er að stuðla að því að 99,9% lögheimila með heilsársbúsetu og starfsstöðva með heilsárs atvinnustarfsemi um allt land, séu tengd eða eigi hið minnsta kost á ljósleiðaratengingu innan fárra ára. Í því sambandi er gert ráð fyrir að allar slíkar byggingar í þéttbýli eigi kost á slíkum gæðum innan fárra ára, en 100-200 byggingar geti verið án þeirra í dreifbýli, þannig að markmiðið náist engu að síður. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum