Hoppa yfir valmynd

Frétt

14. maí 2020 Dómsmálaráðuneytið

Tilkynning um upphaf atkvæðagreiðslu utan kjörfundar vegna kosninga til forseta Íslands, hinn 27. júní 2020

Tilkynning um upphaf atkvæðagreiðslu utan kjörfundar vegna kosninga til forseta Íslands, hinn 27. júní 2020 - myndHaraldur Jónasson / Hari

Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar vegna kosninga til forseta Íslands, sem fram fara hinn 27. júní 2020, getur hafist mánudaginn 25. maí 2020.

Atkvæðagreiðslan fer fram hjá öllum sýslumönnum landsins, í aðalskrifstofu þeirra eða útibúi, en sýslumaður getur ákveðið að atkvæðagreiðsla fari fram á sérstökum kjörstað utan aðalskrifstofu, svo og að atkvæðagreiðsla fari fram á öðrum stöðum í umdæmi hans. Sýslumenn, hver í sínu umdæmi, munu auglýsa nánar staðsetningu og opnunartíma kjörstaða.

Erlendis fer atkvæðagreiðslan fram  í skrifstofu sendiráðs eða fastanefndar hjá alþjóðastofnun, í sendiræðisskrifstofu eða í skrifstofu kjörræðismanns samkvæmt nánari ákvörðun utanríkisráðuneytis. Utanríkisráðuneytið getur og ákveðið að atkvæðagreiðsla fari fram á öðrum stöðum erlendis. Upplýsingar um kjörstjóra erlendis er unnt að nálgast á vefsíðu utanríkisráðuneytisins.

Í ljósi þess ástands sem nú ríkir í samfélaginu vegna COVID-19 farsóttarinnar, telur ráðuneytið rétt að árétta að enn eru í gildi almennar reglur um sóttvarnir, sprittun, handþvott  og sótthreinsun snertiflata, auk reglna um að nánd einstaklinga sé ekki undir 2 metrum eins og kostur er. Við framkvæmd utankjörfundaratkvæðagreiðslu verður tekið mið af þessum reglum. Atkvæðagreiðslan gæti því gengið hægar fyrir sig en vanalega og eru kjósendur beðnir um að sýna því skilning.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum