Hoppa yfir valmynd

Frétt

15. maí 2020 Dómsmálaráðuneytið

Fjárhagsleg endurskipulagning atvinnufyrirtækja og aðgerðir gegn kennitöluflakki

Ríkisstjórnin samþykkti í morgun frumvörp dómsmálaráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og félags- og barnamálaráðherra. Frumvörpin eru hluti af framhaldsaðgerðum stjórnvalda í efnahagsmálum vegna heimsfaraldurs kórónaveiru sem kynntar voru þann 28. apríl sl. 

Frumvörp dómsmálaráðherra snúa að einföldun á fjárhagslegri endurskipulagningu fyrirtækja og aðgerðir til að sporna við kennitöluflakki.

Með frumvarpi til laga um tímabundnar heimildir til fjárhagslegrar endurskipulagningar atvinnufyrirtækja er lagt til að komið verði á fót nýju úrræði er lýtur að fjárhagslegri endurskipulagningu. Þannig verði atvinnufyrirtæki, sem er í þeirri stöðu að fjárhagsgrundvelli þess hefur verið raskað verulega vegna þess ástands sem skapast hefur vegna COVID-19 farsóttarinnar, heimilt að fá greiðsluskjól á meðan unnið er að endurskipulagningu á fjárhag þess með aðkomu aðstoðarmanns. Sækja þarf um úrræðið fyrir 1. janúar 2021. Til að komast í úrræðið þurfa fyrirtækin jafnframt að uppfylla ákveðin skilyrði sem nánar eru útfærð í lögunum. 

Greiðsluskjólið hefst frá þeim tíma sem héraðsdómi berst beiðni um heimild til fjárhagslegrar endurskipulagningar. Meðan á greiðsluskjóli stendur er skuldara óheimilt að ráðstafa eignum sínum og stofna til skuldbindinga eða greiða skuldir sínar án samþykkis aðstoðarmanns síns og skv. heimild í lögunum. Þá er ekki heimilt að taka bú skuldarans til gjaldþrotaskipta, gera fjárnám í eignum hans eða selja nauðungarsölu eða bera hann út úr húsnæði. Honum verður heldur ekki skylt að gefa bú sitt upp til gjaldþrotaskipta. 

Aðgerðunum getur lokið með því að tími greiðsluskjóls renni út þar sem starfsemin er án frekari aðgerða komin í rétt horf, skuldari nær frjálsum samningum við kröfuhafa eða hann óskar eftir nauðasamningum við kröfuhafa. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að unnt verði að koma á nauðasamningi með einfaldari aðgerð en hefðbundið er.

Með frumvarpi um aðgerðir gegn kennitöluflakki er lagt til að gerðar verði breytingar til að sporna við kennitöluflakki og misnotkun hlutafélagaformsins, þannig að dómara verði heimilt að úrskurða þann sem ekki telst hæfur til að stýra hlutafélagi, einkahlutafélagi og í vissum tilvikum samlagshlutafélagi, í atvinnurekstrarbann sem að meginreglu vari í þrjú ár vegna alvarlegri tilvika. 

Tilgangur frumvarpsins er ekki refsing heldur að vernda almenning og samfélagið í heild sinni fyrir misnotkun á hlutafélagaforminu. Með öðrum orðum þá eru ákvæði frumvarpsins samin með undirliggjandi almannahagsmuni að leiðarljósi. Atvinnurekstrarbann er íþyngjandi úrræði og því mikilvægt að því verði ekki beitt nema ástæða sé til og að ákvörðun þar að lútandi byggist á heildarmati á öllum aðstæðum. Því er áréttað að einungis er ráðgert að aðgerðum gegn kennitöluflakki verði beitt vegna alvarlegri tilvika og að ekki sé þrengt að frumkvöðlastarfsemi eða dregið úr hvata einstaklinga til þess að taka þátt í atvinnurekstri.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum