Hoppa yfir valmynd

Frétt

29. maí 2020 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Álagning opinberra gjalda á einstaklinga fyrir 2019 birt

Ríkisskattstjóri hefur lokið álagningu opinberra gjalda á einstaklinga sbr. auglýsingu og frétt á vef Skattsins í dag. Álagningin 2020 tekur mið af tekjum einstaklinga árið 2019 og eignastöðu þeirra 31. desember 2019.

Helstu niðurstöður hennar eru eftirfarandi:

  • Fjöldi framteljenda er um 313 þúsund og fjölgar um 1,8% milli ára. Þetta er minni fjölgun en verið hefur síðustu ár sem endurspeglar þróun vinnumarkaðarins á síðasta ári. Þar af fá 238 þúsund einstaklingar álagðan almennan tekjuskatt og 302 þúsund einstaklingar álagt útsvar. Tekjulausir framteljendur eru um 11 þúsund talsins. Rétt er að taka fram að þeir sem hér eru taldir tekjulausir kunna að vera með fjármagnstekjur.
 
  • Tekjuskatts- og útsvarsstofn landsmanna árið 2020 vegna tekna ársins 2019 nemur 1.609 ma.kr. og hefur hækkað um 5,7% frá fyrra ári. Meðalskattstofn á hvern framteljanda hækkar hins vegar minna vegna fjölgunar þeirra, eða um 3,3%. Stofninn telur almennt öll laun og ígildi launa, lífeyri frá Tryggingastofnun og lífeyrissjóðum, atvinnuleysisbætur og hvers kyns aðrar greiðslur, styrki og hreinar tekjur af atvinnurekstri. Til frádráttar koma tilteknir liðir eins og frádráttarbær iðgjöld í lífeyrissjóð, kostnaður á móti ökutækjastyrk og dagpeningum og aðrir þeir liðir sem lög heimila.
  • Álagður tekjuskattur að frádregnum persónuafslætti sem rennur til ríkissjóðs er 197,2 ma.kr. sem er 3,7% hækkun milli ára. Það eru um 45% af samanlagðri álagningu almenns tekjuskatts og útsvars. Alls eru 238 þúsund einstaklingar með álagðan almennan tekjuskatt sem er 1,5% fjölgun frá fyrra ári. Meðaltekjuskattur á hvern gjaldanda með tekjur hækkar úr 699 þús.kr. á ári í 709 þús.kr. milli álagningaráranna 2019 og 2020, eða um 1,4%. Árið 2019 var persónuafsláttur hækkaður um eitt prósentustig umfram lögbundna verðlagsuppfærslu og þrepamörkin milli skattþrepanna voru miðuð við vísitölu neysluverðs í stað launavísitölu áður. Samanlögð áhrif þessara kerfisbreytinga eru til nokkurrar lækkunar á skattbyrði tekjuskatts.
  • Álagt útsvar til sveitarfélaga er 244,3 ma.kr. sem er 5,2% aukning milli ára. Alls eru 302 þúsund einstaklingar með álagt útsvar sem er 1,4% fjölgun milli ára. Útsvar reiknast af öllum tekjum nema fjármagnstekjum og nýtist persónuafsláttur fjármagnaður af ríkinu upp í útsvar. Ríkissjóður greiðir þannig að öllu leyti útsvar þeirra sem hafa tekjur undir skattleysismörkum. Sá hluti útsvarsins nemur 8,6 ma.kr. fyrir tekjuárið 2019, sem er 6% hærri fjárhæð en á síðasta ári. Útsvar greitt af ríkissjóði í formi persónuafsláttar nemur nú 3,5% af heildarútsvarstekjum sveitarfélaga.
  • Hlutfall áætlaðs tekjuskattsstofns lækkar árið 2020 vegna tekjuársins 2019 og nemur 4,5% af heildartekjuskatts- og útsvarsstofni. Þannig fækkaði framteljendum með áætlaðar tekjur úr 17 þúsund einstaklingum í 16 þúsund einstaklinga milli ára. Sem hlutfall af heildarfjölda framteljenda eru áætlaðir 5,1% árið 2020 samanborið við 5,5% í fyrra.
  • Fjöldi einstaklinga sem fékk skattafslátt vegna kaupa á hlutabréfum var samtals 81 vegna tekjuársins 2019 og lækkaði það tekjuskattstofn þeirra um alls 66 m.kr.
  • Álagður fjármagnstekjuskattur einstaklinga nemur 24,2 ma.kr. og er það hækkun um 2,7% milli ára. Fjöldi gjaldenda fjármagnstekjuskatts er áþekkur milli ára og er tæplega 40 þúsund. Meðalskattur á einstakling hækkar úr 595 þús.kr. á álagningarárinu 2019 í 609 þús.kr. í ár sem er hækkun um 2,3%.
  • Fjármagnstekjur skiptast í tekjur af arði, vöxtum, leigu og söluhagnaði. Tekjur einstaklinga af arði er stærsti einstaki liður fjármagnstekna, eða 38%. Tekjurnar nema 46,1 ma.kr. sem er 5,3% aukning frá fyrra ári. Fjöldi þeirra sem töldu fram arð vegna ársins 2019 var rúmlega 13 þúsund og fækkaði þeim milli ára. Tekjur af söluhagnaði eru 30,2 ma.kr. og eru óbreyttar milli ára, þó fjölskyldum sem telja fram söluhagnað fjölgi nokkuð. Tekjur af vöxtum nema einnig 30,2 ma.kr. og aukast um 2,5% frá fyrra ári. Leigutekjur nema 15,5 ma.kr. og aukast um 7,7% milli ára. Um 7.600 fjölskyldur telja fram leigutekjur og fjölgar þeim lítillega á milli ára.
  • Framtaldar eignir heimilanna námu 7.165 ma.kr. í lok síðasta árs og jukust um 8,8% frá fyrra ári. Þar af telja fasteignir 75% af heildareignum og er verðmæti þeirra 5.351 ma.kr. sem er 9,4% hækkun milli ára. Íbúðareigendum fjölgaði um 3.103 eða um 3,1% á síðasta ári samkvæmt skattframtölunum. Þá námu framtaldar skuldir heimilanna 2.175 ma.kr. í árslok 2019 og jukust þær um 7,9% milli ára. Þar af námu framtaldar skuldir vegna íbúðarkaupa 1.559 ma.kr. og hækkuðu um 10% milli ára. Tæplega 31 þúsund af um 104 þúsund fjölskyldum sem eiga íbúðarhúsnæði telja ekki fram neinar skuldir vegna þess, eða sem svarar til 29% af heild. Af þessu leiðir að nettóeign heimila, skilgreind sem heildareignir að frádregnum heildarskuldum, jókst um 9,2% á árinu 2019 og nam samtals 4.989 ma.kr. Áfram fækkar í hópi þeirra sem eru með skuldir umfram eignir og hefur sú þróun nú verið samfelld í níu ár. Rúmlega 32 þúsund fjölskyldur eru nú með skuldir umfram eignir en á síðasta ári voru þær tæplega 33 þúsund.
  • Útvarpsgjald nemur 4,1 ma.kr. og hækkar um 3,5% frá fyrra ári. Útvarpsgjaldið er lagt á hvern framteljanda á aldrinum 16-69 ára sem hefur tekjur yfir skattleysismörkum og fjölgaði greiðendum gjaldsins um 1,2% milli ára. Gjald í framkvæmdasjóð aldraðra nemur 2,7 ma.kr. og og gilda áþekkar reglur um skattskyldu þess og útvarpsgjalds.
  • Greiðslur ríkissjóðs vegna tekjutengdra barnabóta nema 12,1 ma.kr. og hækka um 3,5% á milli ára. Tæplega 48 þúsund einstaklingar fá barnabætur sem er 2,2% fjölgun milli ára. Bótafjárhæðir voru hækkaðar um 5% milli ára og tekjuskerðingarmörk um rúmlega 24% milli ára. Til viðbótar tekjutengdum barnabótum er greiddur sérstakur barnabótaauki sem nemur 3 ma.kr. sem rúmlega 78 þúsund einstaklingar fá. Barnabótaaukinn er útfærður þannig að þeir framfærendur sem fá greiddar tekjutengdar barnabætur samkvæmt niðurstöðu álagningar fá til viðbótar greiddar 42.000 kr. á hvert barn og þeir framfærendur sem ekki fá greiddar neinar tekjutengdar barnabætur vegna skerðingarákvæða, miðað við tekjur viðkomandi, fá greiddan sérstakan barnabótaauka að fjárhæð 30.000 kr. á hvert barn. Um er að ræða aðgerð vegna heimsfaraldurs Covid-19.
  • Almennar vaxtabætur vegna vaxtagjalda af lánum til kaupa á íbúðarhúsnæði, sem einstaklingar greiddu af á árinu 2019, nema 2,6 ma.kr. sem er 5,8% lækkun milli ára. Almennar vaxtabætur fá rúmlega 15 þúsund einstaklingar og fækkar þeim um 9,7% milli ára, en fjárhæðir hámarksvaxtagjalda og vaxtabóta hækkuðu um 5% og eignamörk bótanna um 10% milli ára. Lækkun vaxtabóta nú eins og fyrri ár skýrist fyrst og fremst af betri eiginfjárstöðu heimila líkt og áður kom fram. Nýting iðgjalda af séreignarsparnaði til greiðslu íbúðarskulda skiptir þar máli og sömuleiðis lækkun vaxta og auknar tekjur og þar með lækkandi vaxtabyrði.
  • Inneign framteljenda að lokinni álagningu er alls 26,8 ma.kr. en 3,7 ma.kr. af henni verður ráðstafað upp í kröfur vegna vangoldinna gjalda. Eftir stendur því 23,1 ma.kr. sem tæplega 186 þúsund manns eiga í inneign hjá ríkissjóði nú um mánaðarmótin. Um er að ræða endurgreiðslu á ofgreiddum sköttum, barnabætur, barnabótaauka og vaxtabætur. Þar af eru 21,8 ma.kr. lagðir beint inn á bankareikninga. Einnig á ríkið kröfur á hluta gjaldenda sem verða á gjalddaga á síðari hluta ársins 2020, vegna vangreiddra skatta ársins 2019 og eldri krafna. Sú fjárhæð nemur alls 56 ma.kr.

Útborgun  til einstaklinga í kjölfar álagningarinnar

M.kr.

2019

2020

Barnabætur

3.230

3.396

Barnabótaauki

 

3.000

Vaxtabætur

2.278

2.151

Ofgreidd staðgreiðsla tekjuskatts og útsvars

11.691

13.003

Ofgreidd staðgreiðsla fjármagnstekjuskatts

999

1.075

Annað

405

474

Alls

18.603

23.098

 

  • Heildarfjárhæðin sem greidd er út við álagninguna hækkar úr 18,6 ma.kr. í 23,1 ma.kr. milli ára. Hækkunin skýrist fyrst og fremst af barnabótaaukanum sem var ekki til staðar í fyrra, en einnig er talsverð hækkun á ofgreiddri staðgreiðslu tekjuskatts og útsvars sem verður nú endurgreidd. Þá mun ríkissjóður auk þessa greiða 3,3 ma.kr. í barnabætur þann 1. október nk.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum