Hoppa yfir valmynd

Frétt

12. júní 2020 Utanríkisráðuneytið

Undirbúningur hafinn af krafti fyrir fríverslunarviðræður við Bretland

Ísland, Noregur og Liechtenstein áttu í gær fyrsta fund sinn með utanríkisviðskiptaráðuneyti Bretlands sem er mikilvægur þáttur í undirbúningi fyrir fríverslunarviðræður við Bretland. Áætlað er að formlegar viðræður hefjist í lok mánaðarins en fulltrúar ríkjanna verða áfram í nánum samskiptum þangað til þær hefjast.

„Ég fagna því að Bretland sé komið að borðinu og er tilbúið að hefja viðræður af fullum krafti. Ljóst er að allir aðilar gera sér grein fyrir þeim miklu hagsmunum sem hér eru í húfi og eru tilbúnir til að leggja mikið á sig til að viðhalda og vernda viðskiptatengsl Íslands og Bretlands,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra.

Á fundinum var farið yfir efni fyrirhugaðs fríverslunarsamnings. Farið var yfir samningsafstöðu á hverju sviði fyrir sig auk þess sem ákvarðanir voru teknar um næstu skref í undirbúningnum fyrir formlegar viðræður. Ákveðið var að halda viðræðum gangandi af fullum krafti út sumarið með fjarfundabúnaði.

Góð samstaða var á fundinum og bjarstýni ríkir um að samningar takist fyrir lok árs. Lög og reglugerðir sem samningurinn kemur til með að byggja á eru að nokkru leyti samræmdar á milli Noregs, Íslands, Liechtenstein og Bretlands vegna EES samningsins og það auðveldar viðræður til muna. Þrátt fyrir að skammur tími sé til stefnu ríkti samstaða um að láta það ekki koma niður á gæðum samningsins og stefnt er að yfirgripsmiklum og metnaðarfullum fríverslunarsamningi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum