Hoppa yfir valmynd

Frétt

24. júní 2020 Innviðaráðuneytið

Félags- og barnamálaráðherra leggur fram frumvarp sem einfaldar regluverk á byggingarmarkaði

Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra. - mynd

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp um breytingu á lögum um mannvirki. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögunum til að einfalda regluverk byggingarmála og gera það skilvirkara, sem hefur í för með sér lægri byggingarkostnað, aukið framboð á íbúðum og bætta stöðu á húsnæðismarkaði. Frumvarpið er í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og lífskjarasamninga sem gerðir voru á almennum vinnumarkaði vorið 2019.

Meginefni frumvarpsins

Í frumvarpinu er lagt er til að mannvirki verði flokkuð eftir stærð þeirra, hversu vandasöm hönnun þeirra er, fyrirhugaðri notkun og samfélagslegu mikilvægi. Verði frumvarpið samþykkt mun umfang og eðli eftirlits með framkvæmdum taki mið af þeirri flokkun. Markmiðið með slíkri flokkun er að hægt sé að aðlaga umsóknarferli og eftirlit að eðli og umfangi framkvæmda.

Þá verða rafræn skil á hönnunargögnum, rafrænar undirskriftir og samþykki vegna umsóknarferlis og skila á gögnum vegna mannvirkjagerðar að meginreglu verði frumvarpið samþykkt. Er það meðal annars mikilvægur þáttur í því að ná fram markmiðum stjórnvalda um að minnka sóun og einfalda stjórnsýslu. Einnig er lagt til að krafa um faggildingu fyrir byggingarfulltrúaembætti sveitarfélaga og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun verði felld brott, en á hinum Norðurlöndunum er þess hvorki krafist að byggingarfulltrúar séu faggiltir sem skoðunarstofur né er byggingareftirliti útvistað til faggiltra skoðunarstofa.

Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra: „Byggingarmarkaðurinn er gríðarlega mikilvæg stoð í íslensku efnahagslífi og með þessu frumvarpi gerum við honum kleift að sækja fram af meiri krafti en áður. Við erum að einfalda regluverkið og stjórnsýsluna og þetta eru fyrstu skrefin í víðtækum breytingum á byggingarreglugerð. Ég hef fulla trú á því að byggingarkostnaður muni lækka verði frumvarpið samþykkt, sem er auðvitað mjög jákvætt fyrir bæði heimilin og byggingariðnaðinn í landinu.”

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum