Hoppa yfir valmynd

Frétt

14. ágúst 2020 Heilbrigðisráðuneytið

Að lifa með veirunni – samráðsfundur 20. ágúst

Heilbrigðisráðherra í samvinnu við forsætis- og dómsmálaráðuneytið efnir til samráðsfundar í formi vinnustofu 20. ágúst með lykilaðilum í samfélaginu um áframhaldandi aðgerðir vegna Covid-19 til lengri tíma litið. Efnt er til samráðsins í samræmi við tillögu sóttvarnalæknis. Streymt verður beint frá fundinum sem markar upphaf samráðsins en afraksturinn verður birtur í samráðsgátt stjórnvalda. Markmiðið er að móta áherslur og leiðarljós sem geti nýst í áframhaldandi vinnu við mótun aðgerða vegna Covid-19 á næstu misserum.

„Við vitum ekki hve lengi kórónaveiran verður áhrifavaldur í samfélaginu og verðum að búa okkur undir að lifa með henni til lengri tíma. Til þess að okkur takist það sem best er mikilvægt að stjórnvöld hafi sem gleggsta mynd af áhrifum þeirra sóttvarnaráðstafana á líf almennings sem hingað til hefur verið beitt. Mikilvægt er að vita hvað það er sem er mest íþyngjandi fyrir einstaka hópa og hvernig það birtist, hvernig fólk sér fyrir sér framtíðina í óbreyttu ástandi, hverjar séu helstu áskoranirnar, hvort og hvað sé unnt að gera til að lágmarka röskun á daglegu lífi fólks og gera það bærilegra svo eitthvað sé nefnt“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.

Fundurinn hefst með ávarpi heilbrigðisráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra, síðan verða nokkur örávörp fagfólks sem fjallar um kórónaveiruna og áhrif hennar á samfélagið í víðu samhengi. Að því loknu verða haldnar vinnustofur sem hver og ein fjallar um stöðuna vegna Covid-19 á afmörkuðum sviðum, áhrif og afleiðingar sóttvarnaaðgerða hingað til og hvernig sjá megi framtíðina fyrir sér svo lengi sem kórónaveiran setur mark sitt á samfélagið. Í lokin verður pallborð þar sem þátttakendur draga saman meginlærdóminn af fundinum og hvernig megi nýta samráðið áfram þannig að sem best sé hægt að taka tillit til margvíslegra aðstæðna og ólíkra hagsmuna.

Þau svið samfélagsins sem sjónum verður beint að eru eftirfarandi:

  • Heilsa og heilbrigðisþjónusta
  • Menning, íþróttir og dægradvöl
  • Menntun
  • Atvinnulíf
  • Almannaöryggi
  • Velferð

Til að setja samráðinu skýra umgjörð verður fengist við eftirfarandi lykilspurningar á framantöldum sviðum:

  1. Hverjar eru helstu áskoranir á viðkomandi sviði til að halda úti starfsemi miðað við þær sóttvarnareglur sem nú gilda?
  2. Ef hægt væri að slaka eitthvað á gildandi sóttvarnareglum, hvaða tilslakanir myndu koma að sem mestu gagni?
  3. Hvaða áhrif telurðu líklegt að óbreyttar sóttvarnareglur muni hafa á viðkomandi sviði til lengri tíma litið?
  4. Hvaða mótvægisaðgerðir gætu komið að sem mestu gagni til að draga úr áhrifum sóttvarnaraðgerða á viðkomandi sviði?
  5. Hvaða hópar líða mest fyrir skerta starfsemi á viðkomandi sviði?
  6. Geturðu nefnt eitthvert eitt atriði sem þú telur skipta mestu máli fyrir samfélagið á tímum kórónaveirunnar?
  7. Annað sem þú vilt taka fram?

Vegna takmarkana á samkomum og tveggja metra reglu er fjölda fundargesta takmörk sett en stefnt er að því að gefa þeim sem heima sitja kost á að koma sjónarmiðum á framfæri inn á fundinn og er unnið að útfærslu á því.

Nánari dagskrá og upplýsingar um fundinn verður birt síðar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum