Hoppa yfir valmynd

Frétt

24. ágúst 2020 Innviðaráðuneytið

Áform kynnt um lög um íslenska alþjóðlega skipaskrá

Áform um að leggja fram frumvarp á Alþingi til nýrra heildarlaga um íslenska alþjóðlega skipaskrá hafa verið birt til kynningar í samráðsgátt stjórnvalda. Allir hafa tækifæri til að senda inn umsögn eða ábendingar en frestur til að skila inn umsögn er til og með 7. september nk.

Markmiðið með frumvarpinu er að móta samkeppnishæft rekstrarumhverfi fyrir kaupskipaútgerð og stuðla að skráningu kaupskipa á Íslandi. Áformað er að sameina öll ákvæði um skráningu kaupskipa og skattlagningu kaupskipaútgerðar í einni heildarlöggjöf. Nýju lögin kæmu í stað gildandi laga frá 2007 um íslenska alþjóðlega skipaskrá.

Flestar siglingaþjóðir í Evrópu reka alþjóðlegar skipaskrár og veita ýmsar skattaívilnanir til þess að vera samkeppnishæfar við að halda skipum í eigu ríkisborgara sinna á skrá. Í dag eru öll kaupskip íslenskra aðila skráð á skipaskrá erlendra ríkja. Síðustu þrjátíu ár hefur skráningum fækkað jafnt og þétt en árið 1987 voru 39 kaupskip skráð á Íslandi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum