Hoppa yfir valmynd

Frétt

25. ágúst 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Atvinnuleitendum gert mögulegt að fara í nám án þess að greiðslur falli niður

Aðgerðirnar eru hluti af átakinu Nám er tækifæri en markmiðið er að koma til móts við atvinnuleitendur með markvissum aðgerðum og hvetja þá til þess að sækja sér formlega menntun til að styrkja stöðu sína á vinnumarkaði.  - mynd

Atvinnuleitendum verður gert kleift að hefja nám og fá fullar atvinnuleysisbætur í eina önn að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Eftir fyrstu önnina tekur Menntasjóður námsmanna við. Frítekjumark vegna skattskyldra tekna einstaklinga sem koma af vinnumarkaði hefur verið hækkað úr 4,1 m.kr. í 6,8 m.kr. til að tryggja þessum hópi rýmri rétt til námslána. Aðgerðirnar eru hluti af átakinu Nám er tækifæri en markmiðið er að koma til móts við atvinnuleitendur með markvissum aðgerðum og hvetja þá til þess að sækja sér formlega menntun til að styrkja stöðu sína á vinnumarkaði. Aðgerðirnar eru hluti af tillögum í mennta- og vinnumarkaðsmálum sem áætlað er að verja samtals 6,2 milljörðum króna í.

Nám er tækifæri

Fjármögnun er tryggð fyrir allt að 3.000 atvinnuleitendur sem hafa verið án atvinnu í sex mánuði eða lengur og vilja skrá sig í nám í dagskóla á vorönn 2021, haustönn 2021 eða vorönn 2022. Kjósi atvinnuleitendur að hefja nám mun það ekki hafa áhrif á bótarétt og nýtingu hans.

Átakið afmarkast við starfs- og tækninám í framhaldsskóla eða háskóla en fyrirsjáanlegur skortur er í þeim geirum. Atvinnuleitendum verður einnig greidd leið í brúarnám. Þá verður háskólamenntuðum boðið upp á flýtileiðir til annarrar prófgráðu þar sem skortur er, til dæmis í og heilbrigðis- og kennslugreinum.

Ríflega helmingur þeirra sem hafa verið án atvinnu í sex mánuði eða lengur hafa einungis lokið grunnnámi. 500 milljónir króna verða settar í aðgerðir til að fjölga verulega þátttakendum í vottuðum námsleiðum framhaldsfræðslunnar og símenntastöðvanna í samstarfi Vinnumálastofnunar og Fræðslusjóð. Þá er fjármagn tryggt fyrir allt að 150 námsmenn í háskólabrýr.

Fjölbreyttar aðgerðir til uppbyggingar

100 milljónir króna verða settar í sérstakan kynningar- og þróunarsjóð til að skapa svigrúm til þróunar á nýjungum í námi, kennsluaðferðum og mati á reynslu atvinnuleitenda. Þá verður ráðist í fjölbreyttar aðgerðir til uppbyggingar. Má þar nefna samskiptatorg atvinnu- og menntamála á Suðurnesjum, aukin áhersla hjá Vinnumálastofnun til að aðstoða viðkvæmustu hópana aftur inn á vinnumarkað ásamt því að NEET verkefni Vinnumálastofnunar, í samstarfi við VIRK, sem snýr að því að virkja 18-29 ára einstaklinga sem hafa flosnað upp úr námi eða verið inn og út af vinnumarkaði verður útvíkkað á landsvísu.

Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra: „Við vitum að næstu misseri verða krefjandi á ýmsum vígstöðvum en við ætlum að blása til sóknar og gera atvinnuleitendum betur kleift að stunda nám án þess að missa rétt sinn til atvinnuleysisbóta. Við ætlum þannig að koma til móts við atvinnuleitendur með markvissum aðgerðum, skapa þekkingu og virkja kraft til framtíðar. Það er skynsamlegt fyrir okkur sem samfélag að verja fjármunum í að virkja atvinnuleitendur til náms. Slíkt skilar sér í aukinni færni, þekkingu og verðmætum fyrir samfélagið allt til lengri tíma.”

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum