Hoppa yfir valmynd

Frétt

25. ágúst 2020 Heilbrigðisráðuneytið

Reglugerð um heimild hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra til að ávísa getnaðarvörnum

Heilbrigðisráðherra hefur sett reglugerð um heimild hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra til að ávísa hormónatengdum getnaðarvörnum. Markmiðið er að auka aðgengi að getnaðarvörnum og stuðla með því að auknu kynheilbrigði fólks. Í reglugerðinni er einnig kveðið á um skilyrði fyrir heimild til að ávísa þessum lyfjum og um námskröfur.

Sækja þarf um leyfi embættis landlæknis til að ávísa lyfjum samkvæmt reglugerðinni. Umsókn skal fylgja staðfesting á að umsækjandi hafi lokið því námi sem krafist er. Umsækjandi skal hafa starfsleyfi eða sérfræðileyfi hér á landi sem hjúkrunarfræðingur eða ljósmóðir og skal starfsleyfi fylgja umsókn nema í þeim tilvikum þegar sótt er samhliða um starfsleyfi eða sérfræðileyfi.

Reglugerðin er sett með heimild í lyfjalögum og lögum um landlækni og lýðheilsu og hefur verið send til birtingar í Stjórnartíðindum. Hún öðlast gildi 1. janúar 2021 og geta ljósmæður og hjúkrunarfræðingar sem uppfylla sett skilyrði og hlotið hafa leyfi landlæknis byrjað að starfa eftir henni í byrjun næsta árs.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum