Hoppa yfir valmynd

Frétt

11. september 2020 Matvælaráðuneytið

Kristján Þór gerði grein fyrir horfum í fiskeldi í ríkisstjórn

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra - mynd

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, gerði grein fyrir horfum í fiskeldi og áherslu á útgáfu rekstrarleyfa í ríkisstjórn í morgun. Í minnisblaði ráðherra kemur fram að heildarframleiðsla í laxeldi var 11.265 tonn árið 2017, en var 26.957 árið 2019 og er áætluð um 31.500 tonn í ár. Útflutningsverðmæti fiskeldis var 25 ma.kr. í fyrra eða sem nemur tæplega 2% af heildarútflutningi. Þá er útflutningsverðmæti fiskeldis áætlað um 35 ma.kr. árið 2021 eða sem nemur tæplega 3% af heildarútflutningi. Með auknu framleiðslumagni verður þessi verðmætaaukning enn meiri á allra næstu árum. Á sama tíma munu beinar tekjur ríkissjóðs hækka samhliða á grundvelli laga um töku gjalds vegna fiskeldis í sjó og fiskeldissjóð.

 

Matvælastofnun sinnir almennri stjórnsýslu með fiskeldi, m.a. hefur eftirlit með rekstraraðilum og gefur út rekstrarleyfi. Samhliða miklum vexti greinarinnar undanfarin ár hefur málsmeðferð rekstrarleyfisveitinga vegna fiskeldis þyngst umtalsvert. Til að bregðast við þessu fékk Matvælastofnun aukið fjármagn árið 2019 til að ráða inn tvo starfsmenn til að mæta þessari þróun.

 

Hinn 27. mars sl. kynnti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 15 aðgerðir til að bregðast við áhrifum COVID-19 á íslenskan landbúnað og sjávarútveg. Meðal aðgerða var að flýta afgreiðslu rekstrarleyfa í fiskeldi og styrkja eftirlit og stjórnsýslu með greininni enda gæti það haft í för með sér mikla fjárfestingu hér á landi og ráðningu á fleira starfsfólki.

 

Ljóst er að aukin áhersla á afgreiðslu rekstrarleyfa í fiskeldi hefur skilað árangri. Þannig má sjá á neðangreindri mynd að árið 2018 var búið að gefa út rekstrarleyfi fyrir hámarkslífmassa á yfir 45.000 tonnum í íslensku sjókvíaeldi en nú hafa verið gefin út leyfi fyrir 79.800 tonnum. Fyrir lok þessa árs er gert ráð fyrir að þessi tala verði komin í um 86.500 tonn á sama tíma og heildarframleiðsla verði um 31.500 tonn.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið í samráði við Matvælastofnun vinnur nú að því að styrkja stjórnsýslu fiskeldis til framtíðar enn frekar. Við þá vinnu verður sérstaklega horft til þess að tengja þá vinnu við áætlun ráðuneytisins um að fjölga starfsmönnum stofnana á landsbyggðinni sem heyra undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Þannig liggur fyrir að í þessum mánuði verður starfsstöð Matvælastofnunar á Ísafirði styrkt enn frekar til að sinna stjórnsýslu fiskeldis.

 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

15. Líf á landi
14. Líf í vatni

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum