Hoppa yfir valmynd

Frétt

18. september 2020 Innviðaráðuneytið

Byggðamálaráð fagnar Loftbrú

Byggðamálaráð hefur sent frá sér ályktun þar sem það fagnar tilkomu Loftbrúar og telur verkefnið vera eina mikilvægustu byggða- og samgönguaðgerð síðari ára. Loftbrú veitir 40% afslátt af heildarfargjaldi fyrir allt að sex innanlandsflug á ári og markmiðið er að bæta aðgengi íbúa á landsbyggðinni sem búa fjarri höfuðborginni að miðlægri þjónustu.

Í ályktun sinni tekur byggðamálaráð undir með Sigurði Inga Jóhannssyni, ráðherra byggðamála um að það sé mikið réttlætismál að þeir sem búa fjarri höfuðborginni en vilja og þurfa að sækja þjónustu þangað fái niðurgreiðslu á ferðum sínum með flugi. Loftbrúin (skoska leiðin) væri hluti af stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og tilgreind bæði í byggðaáætlun og samgönguáætlun.

„Hér er um að ræða mjög mikilvæga aðgerð, sem ég myndi segja að væri ein stærsta byggða- og samgönguaðgerð síðari ára,” segir Ágúst Bjarni Garðarsson, formaður byggðamálaráðs. „Þetta er mál sem hefur verið á dagskrá ráðherra síðan hann kom inn í ráðuneytið. Það er því sérstaklega ánægjulegt að Loftbrúin sé nú orðin að veruleika og komin til framkvæmda,“ segir Ágúst.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum