Hoppa yfir valmynd

Frétt

22. september 2020 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Aukið gagnsæi um félög í ríkiseigu með myndrænni birtingu upplýsinga

Gagnsæi um rekstur félaga í eigu ríkisins hefur verið aukið með myndrænni og aðgengilegri birtingu upplýsinga á vef Stjórnarráðsins um starfsemi og áherslur félaganna.

Þar er m.a hægt að skoða skipan stjórna og stjórnarformanna sem og kynjaskiptingu í einstökum stjórnum og þróun hennar síðastliðin ár. Samkvæmt tölum fyrir árið 2020 eru 55% stjórnarmanna fyrirtækjanna karlar en konur eru 45%. Einnig er á síðunni að finna upplýsingar úr ársreikningum ríkisfélaga fyrir árið 2019, yfirlit yfir félög í eigu ríkisins eftir geirum og fleiri atriði.

Íslenska ríkið á alfarið eða ráðandi hluti í 37 fyrirtækjum með mismunandi starfsemi og markmið en félögin eru mörg stór og áhrifamikil á íslenskum markaði. Heildareignir ríkisfyrirtækja árið 2019 námu um 5.293 ma.kr., eigið fé samtals um 899 ma.kr. og stöðugildi voru um 6.000.

„Það er afar mikilvægt að hafa skýra og glögga sýn yfir lykilþætti í starfsemi ríkisfélaga og upplýsingar um helstu áherslur þeirra, en félögin gegna mikilvægu hlutverki í samfélaginu. Almenningur getur þannig fylgst með þróun mála og traust skapast um starfsemi félaganna jafnframt því sem birting upplýsinga veitir jákvætt aðhald og hvatningu til að gera enn betur,“ segir Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum