Hoppa yfir valmynd

Frétt

14. október 2020 Dómsmálaráðuneytið

Umsáturseinelti í almenn hegningarlög

Dómsmálaráðherra hefur mælt fyrir frumvarpi á Alþingi um breytingar á almennum hegningarlögum sem taka eiga á umsáturseinelti. Um er að ræða háttsemi sem felst í að sitja um aðra manneskju og valda þannig hræðslu eða kvíða.

Markmið breytinganna er að treysta enn frekar vernd þeirra sem verða fyrir umsáturseinelti, ekki síst kvenna og barna. Lagt er til að nýju refsiákvæði um umsáturseinelti verði bætt við almenn hegningarlög. Með ákvæðinu er gert refsivert að hóta, elta, fylgjast með, setja sig í samband við eða með öðrum sambærilegum hætti sitja um annan mann ef háttsemin er endurtekin og til þess fallin að valda hræðslu eða kvíða. Þá er lagt til að brot gegn ákvæðinu varði sektum eða fangelsi allt að fjórum árum.

Með frumvarpinu er lagt til að við almenn hegningarlög verði bætt nýrri lagagrein, er verði 232. gr a laganna, sem geri það refsivert að hóta, fylgjast með, setja sig í samband við eða með öðrum sambærilegum hætti sitja um annan mann ef háttsemin er endurtekin og til þess fallin að valda hræðslu eða kvíða. Sjá nánar um málið á vef Alþingis.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum