Hoppa yfir valmynd

Frétt

16. október 2020 Utanríkisráðuneytið

Íslenskir friðargæsluliðar í öllum Eystrasaltsríkjunum

Íslensku friðargæsluliðarnir í Eystrasaltsríkjunum. Frá vinstri: Björn Malmquist, Sveinn Helgason og Magnús Geir Eyjólfsson - myndUtanríkisráðuneytið

Fulltrúar Íslensku friðargæslunnar eru nú við störf hjá fjölþjóðaliði Atlantshafsbandalagsins í öllum þremur Eystrasaltsríkjunum. Utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra segir aukna þátttöku Íslands í samstöðuaðgerðum á svæðinu fagnaðarefni. 

Ísland hefur undanfarin ár tekið þátt í samstöðuaðgerðum Atlantshafsbandalagsins við Eystrasalt undir merkjum eFP – enhanced Forward Presence. Framan af voru borgaralegir sérfræðingar á sviði upplýsingamiðlunar að störfum í Tallinn í Eistlandi og Rukla í Litáen en í nýliðnum mánuði bættist við staða sérfræðings í Ríga í Lettlandi. 

„Samband Íslands og Eystrasaltsríkjanna er náið og stendur auk þess á sögulegum grunni og því er ánægjuefni að nú starfi íslenskir sérfræðingar á okkar vegum í þeim öllum. Framlag Íslands í samstöðuaðgerðum Atlantshafsbandalagsins á svæðinu er bæði gagnlegt og sýnilegt framlag til öryggis í okkar heimshluta,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. 

Björn Malmquist starfar nú fyrir hönd Íslensku friðargæslunnar í Tallinn í Eistlandi, Magnús Geir Eyjólfsson í Riga í Lettlandi og Sveinn Helgason er í Rukla í Litháen. Sem fyrr segir starfa þeir við upplýsingamiðlun enda með bakgrunn og reynslu á því sviði. Þremenningarnir hittust í Riga á samráðsfundi fyrr í mánuðinum og heimsóttu einnig við það tækifæri öndvegissetur Atlantshafsbandalagsins á sviði upplýsingamála sem er í borginni.

Hin norrænu ríkin í Atlantshafsbandalaginu leggja einnig sitt af mörkum því Danir eru hluti af fjölþjóðlega liðinu í Eistlandi og liðsmenn norska hersins eru í Litáen. Íslensku friðargæsluliðarnir eru eðli málsins samkvæmt borgaralegir starfsmenn.

Forsætisráðherra Noregs, Erna Solberg, heimsótti í byrjun september norsku hermennina sem nú eru í Rukla. „Það er mikilvægt að hin norrænu aðildarríki Atlantshafsbandalagsins sýni samstöðu með Eystrasaltslöndunum líkt og við væntum þess að þau og önnur aðildarríki bandalagsins standi við okkar hlið,“ sagði norski forsætisráðherrann eftir að hún hafði fylgst með stuttri æfingu norsku Telemark-herdeildarinnar „Framlag norrænu ríkjanna skiptir máli - þau og Eystrasaltslöndin eiga margvíslegra sameiginlegra hagsmuna að gæta í öryggismálum og við stöndum þétt saman,“ sagði Erna Solberg við þetta tækifæri í samtali við fulltrúa Íslands í Rukla.

 
  • Erna Solberg heimsækir Rukla - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum