Hoppa yfir valmynd

Frétt

22. október 2020 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Alþjóðleg samstaða um aðgerðir í þágu menntunar

Alþjóðafundur um menntamál fór fram á vegum Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (e. UNESCO) með fjarfundasniði í dag. Þar var fjallað um viðbrögð menntakerfa heimsins við COVID-19 og mikilvægi öflugra menntakerfa og samhæfingar á heimsvísu í kjölfar faraldursins.

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra ávarpaði fundinn og greindi frá áherslum íslenskra stjórnvalda og víðtækri samvinnu við skólasamfélagið sem deilir þeirri sýn að menntun sé í forgangi bæði á tímum heimsfaraldurs og til framtíðar.

„Faraldurinn hefur haft áhrif á skólastarf um allan heim. Það er forgangsmál að koma skólastarfi aftur í sem bestan farveg og styðja við menntun á allan hátt. Þetta var brýnn og uppbyggjandi fundur – ég er stolt af því að geta greint frá árangri og samstöðu innan menntakerfisins hér; margt hefur áunnist þó staðan sé flókin og það er ekki síst sameiginlegri sýn og þrautseigju íslenska skólasamfélagsins að þakka,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Fjórtán þjóðhöfðingjar og forsætisráðherrar tóku þátt í fyrri hluta fundarins og ræddu mikilvægi skuldbindingar ríkja heims til að vinna saman að uppbyggingu í menntamálum í tengslum við COVID-19 faraldurinn. Einnig tóku ýmsir fulltrúar alþjóðastofnana og samtaka til máls. Í seinni hluta fundarins tóku yfir 60 menntamálaráðherrar til máls.

Á fundinum var samþykkt ráðherrayfirlýsing um menntamál sem UNESCO hefur unnið í breiðu samstarfi. Hægt er að kynna sér efni fundarins og yfirlýsinguna á vef UNESCO.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum