Hoppa yfir valmynd

Frétt

27. október 2020 Utanríkisráðuneytið

Fríverslun og heimsfaraldur efst á baugi á EFTA-fundi

Auk Guðlaugs Þórs Þórðarsonar sátu fundinn Katrin Eggenberger, utanríkisráðherra Liechtentstein, Iselin Nybø, iðnaðar- og viðskiptaráðherra Noregs og Guy Parmelin, ráðherra efnahagsmála, menntunar og rannsókna í sambandsstjórn Sviss. - myndEFTA

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, segir aðildina að EFTA og EES sjaldan hafa skipt meira máli en nú þegar heimkreppa stendur yfir, en í ár er hálf öld síðan Ísland gekk í EFTA. Horfur í alþjóðaviðskiptum, efnahagshorfur í skugga heimsfaraldurs og fríverslunarmál voru aðalumræðuefnin á árlegum haustfundi EFTA í dag.

Ráðherrafundur EFTA-ríkjanna fór fram að þessu sinni í gegnum fjarfundarbúnað vegna kórónuveirufaraldursins. Á fundinum ítrekuðu ráðherrarnir mikilvægi þess að standa vörð um frjáls milliríkjaviðskipti sem grundvallast á gagnsæi og skýrum leikreglum í ljósi alvarlegrar stöðu heimsviðskipta á tímum COVID-19. Sérstök áhersla var lögð á mikilvægi þess að tryggja skjótan efnahagsbata í kjölfar heimsfaraldursins. Þá ræddu þeir innbyrðis samtarf EFTA-ríkjanna, samskiptin við helstu samstarfsríki, Evrópusambandið og Bretland.  EFTA fagnar sextíu ára starfsafmæli á árinu, auk þess sem hálf öld er liðin frá því að Ísland gerðist aðili að samtökunum. 

„Það var mikið gæfuspor fyrir Ísland að ganga í EFTA á sínum tíma, þær efnahagslegur framfarir sem orðið hafa hér á landi undanfarna fimm áratugi eiga tvímælalaust að verulegu leyti rætur að rekja til inngöngunnar í EFTA og síðan EES. Þetta skiptir ekki síst máli núna þegar við göngum í gegnum alvarlega efnahagskreppu vegna heimsfaraldurs. Við erum einfaldlega sterkari þegar við tökum höndum saman,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarsson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. 

Á fundinum ræddu ráðherrarnir mikilvægi þess að milliríkjaviðskipti styðji við markmið um sjálfbæra þróun. Farið var yfir jákvæða reynslu EFTA af fríverslunarviðræðum frá því að sérstökum kafla um viðskipti og sjálfbæra þróun var bætt við samningstextann árið 2010. Þá lýstu þeir yfir ánægju með nýlega útvíkkun samningskaflans með uppfærðum ákvæðum um m.a. loftslagsbreytingar, sjálfbæra nýtingu fiskistofna, jafnréttissjónarmið í viðskiptum og réttindi launþega. 

Ráðherrarnir lýstu jafnframt yfir stuðningi við nýjan kafla um rafræn viðskipti en hann miðar að því að aðlaga viðskiptaviðræður EFTA að þróun viðskipta og nýrri tækni. Ráðherrarnir ræddu einnig mikilvægi þess að stuðla að auknu gagnsæi í viðskiptaviðræðum á vettvangi EFTA, frekari upplýsingargjöf gagnvart almenningi og nánara samráði við þingmanna- og ráðgjafarnefnd EFTA.

Eftir fund sinn áttu ráðherrarnir fund með þingmanna- og ráðgjafarnefndum EFTA, þar sem mikill samhugur var um viðskiptastefnu EFTA og nánari samvinnu á krefjandi tímum.

Auk Guðlaugs Þórs Þórðarsonar sátu fundinn Katrin Eggenberger, utanríkisráðherra Liechtentstein, Iselin Nybø, iðnaðar- og viðskiptaráðherra Noregs og Guy Parmelin, ráðherra efnahagsmála, menntunar og rannsókna í sambandsstjórn Sviss.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum