Hoppa yfir valmynd

Frétt

27. október 2020 Innviðaráðuneytið, Utanríkisráðuneytið

Stefnumótun, sjálfbærni og samgöngur meðal efnis á norrænum fundum samstarfsráðherra

Sigurður Ingi Jóhannsson, samstarfsráðherra Norðurlanda, í ræðustól á þingi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi í október 2019. - mynd

Sigurður Ingi Jóhannsson, samstarfsráðherra Norðurlanda, tekur þátt í fjölmörgum fundum í óhefðbundinni þingviku Norðurlandaráðs í vikunni, sem að þessu sinni fer eingöngu fram á fjarfundum vegna kórónufaraldursins. 

Þingvikan hófst í dag með fundi norrænna samstarfsráðherra en þar var til umræðu fjárhagsáætlun ráðherranefndarinnar fyrir næsta ár og aðgerðaáætlun áranna 2021-2024. Almenn samstaða var um fjárlög næsta árs, ásamt fjárhagsramma 2021-2024. Sigurður Ingi lagði áherslu á mikilvægi þess að fjárlögin og fjárhagsramminn styðji við framtíðarsýn ráðherranefndarinnar 2030, um að Norðurlönd eigi að verða sjálfbærasta og samþættasta svæði heims, sem samþykkt var af forsætisráðherrum Norðurlandanna á síðasta ári.

Sigurður Ingi, samstarfsráðherra og samgönguráðherra, lýsti einnig eindregnum stuðningi við þá áherslu Norðurlandaráðs um að nauðsynlegt væri að koma á fót ráðherranefnd um samgöngumál til að ná fram markmiðum framtíðarsýnarinnar.

Loks flutti Sigurður Ingi, fyrir hönd ráðherranefndarinnar, skýrslu um sjálfbærnimál Norrænu ráðherranefndarinnar á fundi sjálfbærninefndar Norðurlandaráðs og svaraði fyrirspurnum nefndarmanna.

Norðurlönd saman

Finnar taka við formennsku af Dönum árið 2021 og yfirskrift formennskuáætlunar þeirra er „Norðurlönd saman“. Heitið vísar til þeirrar staðreyndar að Norðurlöndin eru sterkari saman. Sú samvinna hefur komið skýrt fram í samvinnu landanna í baráttunni við heimsfaraldurinn, sem þau glíma nú við.

Á fundi forsætisnefndar Norðurlandaráðs með samstarfsráðherrum gerði samstarfsráðherra Danmerkur, sem gegnt hefur formennsku í Norrænu ráðherranefndinni, grein fyrir starfi ráðherranefndarinnar á árinu. Samstarfið hefur ekki farið varhluta af heimsfaraldrinum og tengdum áskorunum, sem hafa ekki bara snert Norðurlöndin heldur allt alþjóðasamfélagið. Faraldurinn hefur sýnt hversu náið og traust samstarf Norðurlöndin hafa byggt upp. Lögð hafi verið áhersla á mikilvægi þess að leysa þær hindranir milli landa, sem hafa komið til vegna faraldursins, hvort tveggja fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Mikilvægt væri að draga lærdóm af afleiðingum faraldursins í frekari vinnu við framtíðarsýnina fyrir 2030 og styrkja enn frekar samstarf landanna og samstöðu.

Í vikunni munu samstarfsráðherrar Vestnorrænu ríkjanna, Íslands, Færeyja og Grænlands, einnig funda með Vestnorræna ráðinu, þar sem fjallað verður um vestnorræn málefni.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum