Hoppa yfir valmynd

Frétt

27. október 2020 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Um fjórðungur allra skatttekna og tryggingagjalda fer til almannatrygginga

Sífellt aukinn hluti verðmætasköpunar hagkerfisins rennur til tilfærslukerfa og fjárframlaga ríkissjóðs sem hafa verið í stöðugum vexti síðustu ár. Í minnisblaði sem fjármála- og efnahagsráðherra kynnti í dag í ríkisstjórn um framlög til almannatrygginga (að frátöldum atvinnuleysisbótum) kemur fram að þau hafa nær tvöfaldast frá árinu 2013 miðað við verðlag hvers árs og nema nú 642 þúsund krónum á hvern landsmann aldrinum 18-67 ára.

 

Umfang samneyslu ríkissjóðs (þ.e. launaútgjöld, kaup á vöru og þjónustu og afskriftir að frádreginni sölu á vöru og þjónustu) hefur að meðaltali numið um 12% af vergri landsframleiðslu (VLF) frá árinu 1998 og hefur samneyslan þannig að jafnaði haldið í við vöxt hagkerfisins. Til samanburðar er áætlað að umfang tilfærslukerfa og fjárframlaga, að frátöldum atvinnuleysisbótum, verði 14,6% af VLF árin 2018-2025. Þetta er að meðaltali 2% hærra en umfangið var á árinu 1998. Rekja má þróunina að miklu leyti til þeirra fjárlagaliða sem tengjast lífeyristryggingum og bótum skv. lögum um félagslega aðstoð. Gert er ráð fyrir mikilli hækkun útgjalda til almannatrygginga á næsta ári og að þau nemi rúmum 165 ma.kr. árið 2021 eða sem nemur 5,4% landsframleiðslunnar samanborið við 3,8% árið 2015.

 

Í ljósi þess tekjufalls sem ríkissjóður stendur frammi fyrir vegna heimsfaraldurs kórónuveiru mun hlutfall framlaga almannatrygginga að óbreyttu nema tæpum fjórðungi tekna ríkissjóðs af skatttekjum og tryggingagjaldi á næsta ári í stað 14-15% áður. Ljóst er að svo hraður vöxtur þessara tilfærsluútgjalda er ekki sjálfbær til lengri tíma litið og mun að öðru óbreyttu ryðja frá sér framlögum til annarra tilfærslukerfa, opinberrar þjónustu eða fjárfestingar á vegum ríkisins.

Fjölgun lífeyrisþega og hærri bætur helsta skýringin

Helsta skýringin á hærri framlögum til almannatrygginga er fjölgun lífeyrisþega og hækkun bóta sem leiddi m.a. af umtalsverðum breytingum sem gerðar voru á almannatryggingakerfinu og tóku gildi í upphafi árs 2017. Þá voru bótaflokkar ellilífeyris sameinaðir, almennt frítekjumark innleitt og bætur hækkaðar. Sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega var innleitt 2018.

Örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegar fjórðungi fleiri en 2013

Þá hefur örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegum fjölgað síðustu árin. Frá árinu 2013 er fjölgunin um 4.300 manns, eða sem nemur fjórðungi. Áætlað er að örorkulífeyrisþegum fjölgi að óbreyttu um 2% á ári að jafnaði á komandi árum.

Alls eru örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegar nú 11% mannfjöldans á vinnualdri að innflytjendum undanskildum. Örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegar með erlent ríkisfang eru einungis um 4% allra þeirra sem fá slíkar greiðslur en þeir eru nú hátt í 20% mannfjöldans á vinnualdri.

 
 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum