Hoppa yfir valmynd

Frétt

5. nóvember 2020 Heilbrigðisráðuneytið

Sérnámsstöðum í geðlækningum fjölgað

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra - myndStjórnarráðið

Heilbrigðisráðherra hefur lagt Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH) til 23 milljóna króna fjárveitingu til að fjölga sérnámsstöðum í geðlækningum. Þetta gerir kleift að fjármagna stöður tveggja sérnámslækna við geðheilsuteymi heilsugæslunnar. Undanfarin tvö ár hefur rík áhersla verið lögð á að efla annars stigs geðheilbrigðisþjónustu, meðal annars með stofnun geðheilsuteyma í öllum heilbrigðisumdæmum landsins, sérstöku geðheilsuteymi fanga og geðheilsuteymi í fjölskylduvernd sem starfar á landsvísu líkt og geðheilsuteymi fanga, undir stjórn HH.

Yfirlæknar geðheilsuteyma Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins hafa undanfarið átt í samræðum við umsjónarmenn sérnáms í geðlækningum á Landspítala. Þar hefur verið samhljómur um mikilvægi þess að sérnámslæknar öðlist reynslu í samfélagsgeðlækningum líkt og stunduð er í geðheilsuteymum HH. Fyrsti sérnámslæknirinn er þegar tekinn til starfa í geðheilsuteymi HH austur og reiknað er með að annar sérnámslæknir hefji störf við geðheilsuteymi HH vestur í byrjun næsta árs. Með aukinni fjárveitingu hefur fjármögnun þessara stöðugilda verið tryggð.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir ánægjulegt að sjá annars stigs geðheilbrigðisþjónustu eflast innan opinbera heilbrigðiskerfisins í samræmi við markmið heilbrigðisstefnu. „Þetta er mikilvæg þjónusta sem þarf að auka og enn fremur að jafna aðgengi fólks að henni um allt land, líkt og gert er með geðheilsuteymunum.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum