Hoppa yfir valmynd

Frétt

18. nóvember 2020 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Controlant hlýtur Nýsköpunarverðlaun Íslands 2020

Á myndinni eru (frá vinstri): Guðmundur Arnarson, fjármálastjóri Controlant, Stefán Karlsson, stofnandi og rekstrarstjóri Controlant, Gísli Herjólfsson, stofnandi og framkvæmdastjóri Controlant, Erlingur Brynjúlfsson, stofnandi og tæknistjóri Controlant, og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. - mynd

Íslenska fyrirtækið Controlant hlaut í dag Nýsköpunarverðlaun Íslands árið 2020 sem veitt voru við hátíðlega athöfn í Hörpu. Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra afhenti verðlaunin sem veitt hafa verið framsæknum nýsköpunarfyrirtækjum frá 1994.

Í rökstuðningi dómnefndar segir meðal annars:

„Hug- og vélbúnaður Controlant tryggir gæði viðkvæmra vara í flutningi og dregur úr sóun á lyfjum og matvælum. Controlant gefur framleiðendum lyfja og matvæla mikilvægar rauntímaupplýsingar um hitastig og raka sem fást með nettengdum gagnaritum. Áralöng fjárfesting í tækniþróunarstarfi er að skila sér um þessar mundir í hröðum vexti tekna og er starfsemin komin til rúmlega 100 landa. Á meðal viðskiptavina félagsins eru mörg af stærstu lyfjafyrirtækjum heims. Lausnir félagsins verða mikilvægur hlekkur í dreifingu bóluefna við COVID-19 sem er eitt erfiðasta heilbrigðisvandamál sem heimsbyggðin er að fást við. Það er mat dómnefndar að Controlant  sé verðugur handhafi Nýsköpunarverðlauna Íslands árið 2020 og framundan séu spennandi tímar vaxtar og sóknar á mörkuðum.”

Mikill heiður

„Það er okkur mikill heiður að fá þessi nýsköpunarverðlaun og við erum þakklát nýsköpunarsamfélaginu á Íslandi fyrir þessa viðurkenningu. Við erum afskaplega stolt af þeirri frábæru vinnu sem starfsfólk okkar hefur unnið til að gera Controlant lausnina mikilvæga fyrir viðskiptavini okkar,” segir Gísli Herjólfsson, stofnandi og framkvæmdarstjóri Controlant.

„Okkar vegferð er gott dæmi um hvernig tækni og nýsköpun getur skipt sköpum í lífi fólks. Hvort sem það er með því styðja við aðfangakeðjuna sem kemur lyfjum, bóluefnum og matvælum á áfangastað eða með því að stuðla að umhverfisvænni starfsháttum.”

Controlant hefur vaxið hratt undanfarið en félagið hefur nýlega lokið við hlutafjárútboð þar sem söfnuðust tveir milljarðar króna. Alls hefur félagið því safnað sam­tals 3,5 millj­örðum í gegn­um hluta­fjárút­boð og breyti­leg skulda­bréf á ár­inu. Nýlegir samningar sem Controlant hefur gert munu tífalda veltu fyrirtækisins í um 4-5 milljarða á næstu tveimur árum.

Controlant leggur áherslu á áframhaldandi þróunarstarf og hefur starfsmönnum félagsins fjölgað mjög og  er fyrirséð að félagið mun stækka áfram til að mæta aukinni eftirspurn eftir afurðum fyrirtækisins en starfsmenn eru um 100 um þessar mundir.

Nýsköpunarverðlaun Íslands

Nýsköpunarverðlaunin Íslands eru veitt af Rannís, Íslandsstofu, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins, til fyrirtækja sem þykja hafa skarað fram úr í þróun nýrrar vöru eða þjónustu, sem byggð er á rannsóknar- og nýsköpunarstarfi og náð hefur árangri á markaði. Tilgangur verðlaunanna er að vekja athygli á þeim mikilvægu tengslum sem eru á milli rannsókna og þekkingaröflunar og aukinnar verðmætasköpunar í atvinnulífinu. Verðlaunagripurinn er stytta af frjósemisgoðinu Frey eftir Hallstein Sigurðsson myndhöggvara.

Við val á verðlaunahafa er litið til þess hvort um er að ræða sprotafyrirtæki, hvort það sé byggt á nýrri tækni og hugmynd og hafi þekkingu og reynslu til að sinna framúrskarandi þróunarstarfi. Þá er lagt mat á virðisauka afurða og hvort fyrirtækið hafi náð árangri á markaði. Metið er hvort líkur séu á að fyrirtækið haldi velli og hvort stjórnun nýsköpunar sé til eftirbreytni. Að lokum er metið hvort fyrirtækið sé hvatning fyrir aðra að feta sömu slóð.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin
9. Nýsköpun og uppbygging

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum