Hoppa yfir valmynd

Frétt

26. nóvember 2020 Fjármála- og efnahagsráðuneytið, Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Slagkraftur opinberra innkaupa virkjaður til sóknar í nýsköpun

Ferðamála-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra í samstarfi við Ríkiskaup efna til sóknar til aukinnar nýsköpunar með því að nýta slagkraft opinberra innkaupa. Það verður gert með sérstöku samstarfsverkefni þar sem markmiðið er að auka aðgengi nýrra lausna og nýrra leiða í innkaupum hins opinbera sem ár hvert stendur að yfir 500 útboðum vegna kaupa á vörum, þjónustu og verklegum framkvæmdum.

Ýmislegt hefur verið gert á undanförnum mánuðum til að auka nýsköpun í rekstri opinberra aðila í samvinnu ráðuneyta, Ríkiskaupa og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Má þar nefna Heilbrigðismót sem haldið var síðastliðið sumar sem var hluti af fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar um nýsköpun í heilbrigðisþjónustu. Mikilvægt er að tryggja áframhaldandi vinnu í þessa átt og mun því einn starfsmaður Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands flytjast til Ríkiskaupa og vinna að framvindu aðgerða.

Samstarfsverkefnið sem nú fer af stað er hluti aðgerðaáætlunar um opinbera nýsköpun sem gefin var út á grunni Nýsköpunarstefnu fyrir Ísland og tengist stefnumótun um opinber innkaup. Markmiðið er að opinberir aðilar beiti nýskapandi lausnum til þess að gera þjónustu sína vistvænni og skilvirkari í takti við þarfir notenda. Þetta kallar á aukna samvinnu milli opinberra aðila jafnt sem einkaaðila, sérstaklega á sviði sjálfbærra lausna. Framkvæmd útboða þarf að breytast til að betur sé tekið tillit til nýsköpunar í innkaupaferlum, og aðgengi aukið fyrir nýjar lausnir frá nýskapandi fyrirtækjum og sprotum.

„Nýjar lausnir eru nauðsynlegar til þess að mæta þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir sem samfélag, svo sem vegna breyttrar aldurssamsetningar þjóðarinnar, loftslagsbreytinga, örra tæknibreytinga og krafna um aukna skilvirkni í starfsemi hins opinbera. Þessum áskorunum þarf að mæta með nýrri nálgun og aukinni nýsköpun,” segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

„Það er mikilvægt að skapa opinberum aðilum tækifæri til að ræða nýjar lausnir sem eru í þróun í samfélaginu og geta haft jákvæð áhrif til að bæta opinbera þjónustu og bætt nýtingu fjármuna. Þá skiptir ekki síður máli fyrir eflingu nýsköpunar og atvinnuþróunar að frumkvöðlar og sprotafyrirtæki getið unnið með opinberum aðilum að þróun nýrra aðferða og tækni sem eru grundvöllur verðmætasköpunar í samfélaginu, segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.“


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum