Hoppa yfir valmynd

Frétt

1. desember 2020 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Undirbúningur að stofnun Tónlistarmiðstöðvar hafinn

Mennta- og menningarmálaráðherra skipaði í dag, á degi íslenskrar tónlistar, sjö manna starfshóp til að undirbúa stofnun Tónlistarmiðstöðvar. Starfshópnum er ætlað að rýna umhverfi tónlistargeirans á Íslandi, skoða hvernig stuðnings- og sjóðakerfi tónlistar verði best skipulagt, leggja drög að tónlistarstefnu og skilgreina hlutverk og ramma Tónlistarmiðstöðvar, sem ráðgert er að setja á laggirnar.

Í starfshópnum sitja aðilar tilnefndir af ólíkum hagaðilum, auk formanns sem ráðherra skipar án tilnefningar og ber sá ábyrgð á að fundargerðum og niðurstöðum nefndarstarfs sé skilað til ráðuneytisins eigi síðar en 1. mars 2021.

Starfshópurinn er þannig skipaður:
Jakob Frímann Magnússon formaður, skipaður án tilnefningar,
Valgerður Guðrún Halldórsdóttir, tilnefnd af Tónverkamiðstöð,
Bryndís Jónatansdóttir, tilnefnd af ÚTÓN,
Bragi Valdimar Skúlason, tilnefndur af Samtóni,
Gunnar Hrafnsson, tilnefndur af Bandalagi íslenskra listamanna,
Eiður Arnarsson, tilnefndur af Félagi hljómplötuframleiðenda, og
Arnfríður Sólrún Valdemarsdóttir, sérfræðingur í mennta- og menningarmálaráðuneytinu.

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.
„Engin orð fanga mikilvægi íslenskrar tónlistar, bæði fyrir sjálfsmynd og menningu þjóðarinnar. Í henni er einhver ólýsanlegur strengur, sem höfðar ekki bara til okkar sjálfra heldur tónlistarunnenda um allan heim. Íslenskt tónlistarfólk hefur náð ótrúlegum árangri á fjölmörgum sviðum tónlistar og fyrir vikið er tónlist orðin ein af okkar mikilvægustu útflutningsgreinum. Hún vekur athygli á landi og þjóð, laðar ferðafólk til landsins og skapar þannig veraldleg verðmæti auk þeirra menningarlegu. Það er löngu tímabært að skapa íslenskri tónlist betri umgjörð og ég trúi því að stofnun Tónlistarmiðstöðvar sé mikilvægt skref í þeirri vegferð.“



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum