Hoppa yfir valmynd

Frétt

19. janúar 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Aukin þjónusta við börn – Átak í styttingu á biðlistum

 Með fjárveitingunni verður unnt að stytta biðtíma barna á aldrinum 2- 6 ára eftir þjónustu.  - mynd

Þjónusta Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins (GRR) verður aukin til muna en Alþingi samþykkt um áramót tillögu Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra, að veita 80 milljónum króna til GRR til þess að vinna á biðlistum. Með fjárveitingunni verður unnt að stytta biðtíma barna á aldrinum 2- 6 ára eftir þjónustu.

Undanfarin ár hefur, undir forystu félagsmálaráðuneytisins, verið unnið að undirbúningi lagaumhverfis sem miðar að því að tryggja börnum og aðstandendum þeirra, snemmbæran, samþættan stuðning þvert á kerfi. Verkefnið hefur verið unnið í víðtæku samráði við fjölmarga aðila, svo sem önnur ráðuneyti, þingmannanefnd um málefni barna, félagasamtök og almenning. Áhersla þessara breytinga er að tryggja að hin mismunandi þjónustukerfi innan velferðarþjónustunnar vinni betur saman til að tryggja farsæld barna. Ljóst er að fyrrgreindar breytingar, gangi þær eftir, munu hafa veruleg áhrif á biðlista hjá GRR þar sem fleiri börn munu njóta snemmtæks stuðnings á fyrri þjónustustigum sem ætti að draga úr þörf  þeirra fyrir þjónustu stöðvarinnar. Um leið mun skapast svigrúm til að sinna þeim börnum og fjölskyldum þeirra sem hafa miklar eða mjög miklar stuðningsþarfir.

GRR vinnur einnig að tveimur tilraunaverkefnum og hefur gert samstarfssamning um stofnun landshlutateyma á Suðurlandi og Suðurnesjum. Markmiðið er að auka samvinnu og samráð milli GRR og þjónustuaðila í heimabyggð við greiningu og íhlutun fatlaðra barna. Snúa markmiðin meðal annars að því að stytta biðtíma eftir þjónustu GRR og stuðla að virkari forgangsröðun að þjónustu stofnunarinnar og að tilvísanir til GRR verði í samræmi við þörf fyrir frekari greiningu, að í greiningarferlinu sé samfella í þjónustu við barnið í heimabyggð og stuðningur eftir þörfum frá GRR. 

Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra: „Það er mikilvægt að þessi fjárveiting hafi verið samþykkt enda eiga börn ekki að þurfa að bíða eftir nauðsynlegri þjónustu, ráðgjöf og öðrum úrræðum sem bæta lífsgæði þeirra. Við þurfum líka að vera meðvituð um að samhliða þessu munum við innleiða stórar kerfisbreytingar á næstu árum þar sem barnið verður hjartað í kerfinu og tryggt verður að samfélagið muni grípa fyrr inn í þegar aðstoðar er þörf. Áhrif þessara breytinga munu samhliða þessu gera okkur mögulegt að setja meiri kraft í greiningu og ráðgjöf fyrir þau börn sem hafa miklar þarfir fyrir stuðning.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum