Hoppa yfir valmynd

Frétt

25. janúar 2021 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Frumvarp um málsmeðferð vindorku í verndar og orkunýtingaáætlun í samráðsgátt

Vindmyllur - myndJohannes Jansson/norden.org

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur sett til kynningar í samráðsgátt frumvarp til breytingum á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun. Frumvarpið er unnið á grundvelli skýrslu  ásamt skilabréfi starfshóps þriggja ráðuneyta sem vann að tillögum um nýja málsmeðferð vindorku innan verndar- og orkunýtingaráætlunar (Rammaáætlunar).

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að „setja þurfi lög um vindorkuver ásamt því að vinna með sveitarfélögum leiðbeiningar um skipulagsákvarðanir og leyfisveitingar“.

Sérstakur starfshópur, skipaður fulltrúum frá umhverfis- og auðlinda-, atvinnuvega- og nýsköpunar- og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, fékk það hlutverk að móta tillögur um hvernig best væri að haga málefnum vindorku sem orkunýtingarkosts hér á landi og hvort hún eigi að sæta annarri málsmeðferð innan rammaáætlunar en hinir hefðbundnu orkunýtingarkostir.

Í skýrslu starfshópsins er lagt til að lögin verði aðlöguð betur að séreðli vindorkunnar, sem hvorki er staðbundin eða takmörkuð að eðli eða umfangi, og landsvæðum skipt niður í þrjá flokka, með tilliti til hagnýtingar vindorku og byggingar vindorkuvera.

Flokkur 1 tekur til þeirra landsvæða þar sem ekki yrði leyft að reisa vindorkuver. Undir flokk 2 falla svæði sem gætu í eðli sínu verið viðkvæm fyrir uppbyggingu vindorkuvera, en þar sem virkjun vinds gæti þó komið til greina að uppfylltum tilteknum skilyrðum og að undangengnu mati verkefnisstjórnar rammaáætlunar. Flokkur 3 nær svo yfir þau landssvæði sem hvorki  falla í flokk 1 né 2 og þar liggur ákvörðunarvaldið hjá viðkomandi sveitarfélagi og öðrum stjórnvöldum. 

Í tillögunum er gert ráð fyrir að við mat á virkjunarkostum í vindorku innan rammaáætlunar verði horft til sérstakrar stefnumörkunar stjórnvalda sem sett verði fram í þingsályktun, þar sem gerð verði grein fyrir þeim svæðum sem falla í flokk 1. og 2.

Umsögnum um frumvarpsdrögin skal skilað í Samráðsgátt Stjórnarráðsins eigi síðar en 5. febrúar næstkomandi. Athygli er vakin á fylgigögnum í Samráðsgátt.

Drög að breytingu á lögum nr. 48/2011, um verndar- og orkunýtingaráætlun (málmeðferð virkjunarkosta í vindorku)

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum