Hoppa yfir valmynd

Frétt

4. febrúar 2021 Matvælaráðuneytið, Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Endurskoðaður rammasamningur ríkis og bænda undirritaður

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands, og Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður samninganefndar ríkisins.  - myndGolli

 

  • Samkomulag um breytingar á rammasamningi um almenn starfsskilyrði landbúnaðarins undirritað í dag. Allir fjórir búvörusamningarnir sem tóku gildi 1. janúar 2017 hafa þá verið endurskoðaðir.
  • Íslenskur landbúnaður verði að fullu kolefnisjafnaður eigi síðar en árið 2040. 
  • Samstaða um að ný landbúnaðarstefna fyrir Ísland verði grunnur að endurskoðun búvörusamninga árið 2023.
  • Mælaborð landbúnaðarins sett á fót á næstu vikum.
  • Bændasamtök Íslands munu útfæra búvörumerki fyrir íslenskar landbúnaðarafurðir að norrænni fyrirmynd.

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands, undirrituðu í dag samkomulag um breytingar á rammasamningi um almenn starfsskilyrði landbúnaðarins. Samkomulagið er hluti af endurskoðun búvörusamninga. 

Í samkomulaginu er tæpt á fjölmörgum atriðum sem eiga að styrkja og styðja við íslenskan landbúnað. Sérstök áhersla er lögð á loftslagsmál og er kveðið á um að íslenskir landbúnaður verði að fullu kolefnisjafnaður eigi síðar en árið 2040. Þá er samstaða um að ný landbúnaðarstefna fyrir Ísland verði grunnur að endurskoðun búvörusamninga árið 2023. Jafnframt er kveðið á um að fjármunir úr rammasamning búvörusamninga renni til Bændasamtaka Íslands, m.a. til útfærslu á búvörumerki fyrir íslenskar landbúnaðarafurðir að norrænni fyrirmynd. Um leið er í samkomulaginu ákvæði um tollvernd sem er hluti af starfsskilyrðum landbúnaðarins.

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra:

„Það er afskaplega ánægjulegur áfangi að hafa nú lokið við endurskoðun á öllum fjórum búvörusamningunum á þessu kjörtímabili. Að baki er mikil vinna með umfangsmiklum breytingum á starfsskilyrðum íslensks landbúnaðar til hins betra. Í samkomulaginu sem nú var undirritað er að finna ákvæði sem ég er sannfærður um að muni styrkja undirstöður landbúnaðarins, m.a. ákvæði um að ný landbúnaðarstefna fyrir Ísland, sem mun liggja fyrir í vor, verði grunnur að endurskoðun búvörusamninga árið 2023. Um leið verður mælaborð landbúnaðarins skref í að skapa betri yfirsýn yfir stöðu greinarinnar á hverjum tíma og útfærsla búvörumerkis fyrir íslenskar landbúnaðarafurðir að norrænni fyrirmynd verður mikilvægt verkefni í að tryggja sérstöðu íslenskra vara á markaði, til hagsbóta fyrir framleiðendur og neytendur.”

Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands:

„Það er ánægjulegt að loks hafi verið lokið við endurskoðunina en tæknileg atriði hafa verið umfangsmikil þar sem nýstofnaður Matvælasjóður hefur áhrif á samninginn. Einnig er mikilvæg grein í samningnum þar sem fram kemur að tollar séu hluti af starfsumhverfi landbúnaðar og þar að auki verður tekið tillit til þróunar á þeim vettvangi. Í hluta af framlagi samningsins, sem rennur beint til Bændasamtakanna, er viðurkennd sú ábyrgð sem samtökin bera gagnvart opinberum aðilum á grundvelli laga. Stuðningur við þróun búvörumerkis fyrir íslenska framleiðslu er einnig hluti rammasamningsins sem er mikilvægt skref fyrir íslenska matvælaframleiðslu.“

Hér má nálgast samkomulagið en það gildir út árið 2026. 

 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin
15. Líf á landi
9. Nýsköpun og uppbygging
8. Góð atvinna og hagvöxtur
11. Sjálfbærar borgir og samfélög

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum