Hoppa yfir valmynd

Frétt

18. febrúar 2021 Dómsmálaráðuneytið

Frumvarp til laga um breytingu á hjúskaparlögum í samráðsgátt

Drög að frumvarpi til laga um breytingu á hjúskaparlögum nr. 31/1993 hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda. Hægt er að senda inn umsögn til og með 1. mars nk.

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ýmsum þáttum hjúskaparlaga. Lagðar eru til breytingar sem varða undanþáguheimild vegna lágmarksaldurs til þess að stofna til hjúskapar, könnun hjónavígsluskilyrða, lögsögu í hjónaskilnaðarmálum auk þess sem lagt er til að færa verkefni frá ráðuneytinu til sýslumanna. 

Meginefni frumvarpsins

Aldur hjónaefna

Í fyrsta lagi er um að ræða breytingar á ákvæðum hjúskaparlaga varðandi aldur hjónaefna. Samkvæmt núgildandi lögum mega tveir einstaklingar stofna til hjúskapar þegar þeir hafa náð 18 ára aldri. Ráðuneytið getur veitt yngra fólki leyfi til að ganga í hjúskap enda liggi fyrir afstaða forsjárforeldra til hjúskaparstofnunarinnar. Lagt er til að afnumin verði undanþáguheimild frá því að einstaklingur yngri en 18 ára megi ganga í hjúskap. Einnig er lagt til að lögfesta meginreglu um viðurkenningu hjónavígslu sem stofnað er til erlendis. Lagt er til að lögin beri með sér að hjónavígslur einstaklinga yngri en 18 ára sem fara fram erlendis verði ekki viðurkenndar hér á landi nema samkvæmt ströngum undanþágum. Lagt er til að undanþágur verði einungis veittar í undantekningartilvikum með hliðsjón af hagsmunum þess sem var undir 18 ára. Þá verði alltaf að uppfylla þau skilyrði að einstaklingur hafi náð 16 ára aldri þegar hjónavígsla fór fram og hjúskapurinn verið viðurkenndur í því ríki þar sem hjónavígslan fór fram.

Könnun á hjónavígsluskilyrðum

Í öðru lagi er lagt til að könnun hjónavígsluskilyrða fari einungis fram hjá sýslumönnum, hvort sem hjónaefni eigi lögheimili hér á landi eða ekki. Þá er lagt til að ráðuneytið geti með reglugerð ákveðið að fela einu sýslumannsembætti umrætt verkefni. Þess ber að geta að vígsluheimildir presta og forstöðumanna trú- og lífsskoðunarfélaga og umboðsmanna þeirra verða óbreyttar samkvæmt lögum.

Lögsaga í hjónaskilnaðarmálum

Í þriðja lagi eru lagðar til breytingar á ákvæðum hjúskaparlaga varðandi lögsögu íslenskra stjórnvalda og dómstóla til þess að veita lögskilnað hér á landi í tilteknum tilvikum ef hvorugur aðili býr hér á landi og viðkomandi eru ekki íslenskir ríkisborgarar.

Færsla verkefna frá ráðuneytinu til sýslumanna

Í fjórða lagi eru lagðar til breytingar sem snúa að því að færa verkefni frá ráðuneytinu til sýslumanna.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum