Hoppa yfir valmynd

Frétt

25. febrúar 2021 Utanríkisráðuneytið

Fundað um fríverslunarviðræður við Bretland

Guðlaugur Þór á fundinum í dag - myndUtanríkisráðuneytið

Staða og horfur í fríverslunarviðræðum Bretlands og Íslands, Noregs og Liechtenstein voru efst á baugi á fjarfundi ráðherra utanríkisviðskipta þessara ríkja í dag. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra tók þátt í fundinum fyrir Íslands hönd.

Fríverslunarviðræður Bretlands og EFTA-ríkjanna innan EES, Íslands, Noregs og Liechtenstein, hafa staðið yfir frá því  í haust. „Viðræður ganga vel og stefnt er að því að þeim ljúki svo fljótt sem auðið er svo að samningur geti tekið gildi á þessu ári. Ráðherrar utanríkisviðskipta þessara ríkja komu saman til fjarfundar í dag þar sem þeir lýstu yfir mikilli ánægju með gang viðræðnanna um leið og þeir ræddu útistandandi atriði. Voru þeir á einu máli um að ljúka heildstæðum og yfirgripsmiklum fríverslunarsamningi til hagsbóta fyrir fólk og fyrirtæki.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra lagði á fundinum áherslu á sameiginlega hagsmuni Íslands og Bretlands af frjálsum og óheftum viðskiptum með sjávarafurðir, sérstaklega í ljósi vinnslu á íslenskum sjávarafurðum í Bretlandi. Hann ítrekaði jafnframt smæð íslensks landbúnaðar og viðkvæmni gagnvart innflutningi á landbúnaðarafurðum.

„Það er ávallt gagnlegt að koma saman og meta stöðuna og næstu skref í þessum mikilvægu viðræðum. Þýðingu Bretlandsmarkaðar fyrir íslenskan sjávarútveg er vart hægt að ofmeta en Bretar hafa líka augljósan hag af því að geta flutt inn okkar ferska og góða fisk án hindrana. Það var því gott að geta áréttað þetta á fundi okkar ráðherranna í dag,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra.

Fundinn sátu auk Guðlaugs Þórs, Ranil Jayawardena, ráðherra utanríkisviðskipta í Bretlandi, Iselin Nybø, utanríkisviðskiptaráðherra Noregs og Katrin Eggenberger, utanríkisráðherra Liechtenstein.

Bráðabirgðafríverslunarsamningur Íslands og Bretlands tók gildi þann 1. janúar og er ætlað að brúa bilið þar til nýr heildstæður fríverslunarsamningur tekur gildi. Lokið var við loftferðasamning fyrir áramót sem og samstarfsyfirlýsingu á sviði sjávarútvegsmála. Ísland og Bretland eiga einnig í viðræðum á öðrum mikilvægum sviðum á borð við almannatryggingar og heilbrigðisþjónustu, dvalarleyfi ungmenna, rannsóknir og menntun, flugöryggismál, gagnkvæma viðurkenningu á ökuskírteinum og innra öryggi.

  • Fundað um fríverslunarviðræður við Bretland - mynd úr myndasafni númer 1

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum