Hoppa yfir valmynd

Frétt

26. febrúar 2021 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Skýrari leiðsögn um námsmat í grunnskólum

Menntamálastofnun hefur verið falið að vinna að tveggja ára umbótaverkefni um námsmat í grunnskólum.

„Markmið þessa verkefnis er að auka skilning kennara, nemenda, foreldra og skólastjórnenda á námsmati í grunnskólum, auðvelda kennurum vinnu með námsmat og stuðla þannig að betra samhengi milli náms nemenda og árangursmælinga. Þar eru mörg sóknarfæri sem við viljum nýta betur. Virk ráðgjöf og stuðningur á þessu sviði mun standa skólastjórnendum og kennurum til boða frá og með næsta hausti,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Samspil við nýja menntastefnu
Í menntastefnu til 2030 sem gert er ráð fyrir að Alþingi samþykki á vorþingi sem þingsályktun er námsmat meðal lykilþátta. Þar segir m.a. að námsmat skuli meta hæfni nemenda á gagnsæjan og leiðbeinandi hátt og taka til mismunandi hæfni hvers og eins. Einnig að námsmat verði sett fram þannig að það veiti reglulega skýrar upplýsingar um framvindu náms og sé fjölbreytt mat á námi, vellíðan og velferð nemenda.

Ákall um skýrari leiðsögn
Fyrir liggur nýlega birt skýrsla á vef ráðuneytisins um mat á innleiðingu aðalnámskrár grunnskóla, þar sem fram kemur að innleiðing núgildandi aðalnámskrár tókst ekki sem skyldi, þá sérstaklega innleiðing greinasviða grunnskóla sem voru gefin út 2013.

Kallað hefur verið eftir skýrari leiðsögn um námsmat og samspil grunnþátta menntunar og lykilhæfni við útgefin hæfni- og matsviðmið greinasviða grunnskóla. Skýrt ákall er eftir útskýringum og dæmum um hvernig vinna skuli með hæfni- og matsviðmið og kynningu þeirra fyrir nemendum og foreldrum.

Fimm aðgerðir til úrbóta

Í framangreindri skýrslu eru einnig settar fram fimm meginaðgerðir til úrbóta sem hafa verið samþykktar. Ein þeirra lýtur að sérfræðingateymi sem aðstoði skuli skóla og sveitarfélög við innleiðingu og vinnu samkvæmt aðalnámskrá. Áhersla teymisins, sem starfa mun innan Menntamálastofnunar, verður á vinnu með hæfni- og matsviðmið á öllum stigum grunnskólans og tengingu þeirra við grunnþætti og lykilhæfni eftir því sem þurfa þykir. Gert er ráð fyrir að sérfræðingateymið komi einnig að rýni og endurskoðun á greinasviðum aðalnámskrár grunnskóla sem farin er af stað.

Menntamálastofnun mun leita til frumkvöðla í skólasamfélaginu til að taka þátt í verkefninu. Teymið mun meðal annars búa til leiðbeinandi efni og viðmið, verkefni og myndbönd með hagnýtum dæmum um vinnu með hæfni- og matsviðmið og einnig kynningarefni fyrir nemendur og foreldra. Teyminu er einnig ætlað að vera í tengslum við þau sveitarfélög og skóla sem óska eftir aðstoð við innleiðingu. Tiltækar tæknilausnir verða nýttar við framkvæmd verkefnisins.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

4. Menntun fyrir öll

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum