Hoppa yfir valmynd

Frétt

5. mars 2021 Utanríkisráðuneytið

Fyrsti norræni utanríkisráðherrafundur ársins

Guðlaugur Þór á fundinum í dag - myndUtanríkisráðuneytið

Alþjóðamál, öryggis- og varnarmál og COVID-19 voru efst á baugi á fundi utanríkisráðherra Norðurlanda sem fram fór í dag. Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra segir samband ríkjanna standa sterkar eftir kórónuveirufaraldurinn. 

Utanríkisráðherrar Norðurlanda ræddust við á fjarfundi í dag þar sem þróun mála á alþjóðavettvangi var meðal annars í brennidepli. Ráðherrarnir ítrekuðu mikilvægi Atlantshafstengslanna og fögnuðu m.a. endurkomu Bandaríkjanna í Alþjóðaheilbrigðisstofnunina og að Parísarsamkomulaginu um loftslagsmál. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra leiddi þessa umræður og gerði þar m.a. grein fyrir nýafstöðnu samráði Íslands við Bandaríkin um öryggis- og varnarmál. 

„Norðurlandasamstarfið er bæði fjölbreytt og þróttmikið og líklega hefur það aldrei staðið sterkar en einmitt nú. Í fyrra tók ég þátt í 31 ráðherrafundi með Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum sem segir sína sögu um mikilvægi samstarfsins á þeim óvissutímum sem nú eru uppi. Þar gildir einn fyrir alla og allir fyrir einn,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra.                 

Þá fjölluðu ráðherrarnir um málefni Kína, þar á meðal stöðuna í Hong Kong. Einnig lýstu ráðherrarnir yfir stuðningi við formennsku Svíþjóðar í Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE) sem þeir tóku við um áramótin. Norðurlöndin hafa lagt sérstaka áherslu á mannréttindamál innan ÖSE og í því sambandi áréttuðu ráðherrarnir stuðning sinn við lýðræði og mannréttindi í Hvíta-Rússlandi. Noregur tók sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna um áramótin til næstu tveggja ára og fögnuðu ráðherrarnir áherslu þeirra á fjölþjóðasamvinnu og alþjóðalög, friðaruppbyggingu, málefni hafsins, loftslagsmál, mannréttindi og jafnrétti innan ráðsins.  

Þá var rætt um stöðu mála varðandi yfirstandandi heimsfaraldur m.a. hvað varðar bólusetningar og bólusetningarvottorð, sem gætu auðveldað ferðalög milli ríkja.

Auk Guðlaugs Þórs tóku þátt í fundinum Ine Marie Eriksen Søreide, utanríkisráðherra Noregs, Ann Linde, utanríkisráðherra Svíþjóðar, Jeppe Kofod, utanríkisráðherra Danmerkur, og Pekka Haavisto, utanríkisráðherra Finnlands. 

 
  • Fyrsti norræni utanríkisráðherrafundur ársins - mynd úr myndasafni númer 1

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum