Hoppa yfir valmynd

Frétt

11. mars 2021 Innviðaráðuneytið

Samkomulag undirritað um 215 milljóna stuðning við atvinnulíf á Seyðisfirði

Frá undirritun samkomulagsins í Öldunni á Seyðisfirði. F.v. Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar, Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, og Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings. - mynd

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, undirritaði í dag samkomulag við Múlaþing um þriggja ára verkefni til að byggja upp atvinnulíf á Seyðisfirði, sem stendur frammi fyrir margþættum vanda í kjölfar hamfaranna í desember sl. Ríkisstjórnin leggur til 215 milljónir króna til að styðja við þróun atvinnutækifæra og nýsköpun, greiða fyrir því að óvissa verði leidd til lykta og einyrkjum og minni fyrirtækjum veitt ráðgjöf.

Sigurður Ingi heimsótti Seyðisfjörð í morgun af þessu tilefni, fékk leiðsögn um svæðið og ræddi við heimafólk áður en gengið var til undirritunar á veitingastaðnum Öldunni á Seyðisfirði. Auk ráðherra skrifuðu Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings, og Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar undir samkomulagið. 

Verkefnisstjórn er skipuð tveimur fulltrúum Múlaþings, tveimur fulltrúum íbúa á Seyðisfirði og einum fulltrúa Austurbrúar. Austurbrú heldur utan um verkefnið og hefur ráðið til þess verkefnisstjóra. Fjárframlag ríkisins mun nema 105 milljónum kr. í ár en 55 milljónum kr. hvort ár, 2022 og 2023. Byggðastofnun mun veita ráðgjöf og styðjast þar við reynslu sína við uppbyggingu atvinnulífs. Múlaþing og Austurbrú munu leggja til fjármagn, vinnuframlag og aðstöðu.

„Það er eindreginn vilji ríkisstjórnarinnar að veita samfélaginu á Seyðisfirði nauðsynlegan stuðning eftir hinar miklu hamfara á staðnum. Mikilvægt er að hefja þegar í stað vinnu viðað styðja atvinnulífið og þar með samfélagið í bænum. Samkomulagið kveður á um góðan fjárstuðning en það rammar einnig inn mikilvægt samstarf við heimafólk um uppbygginguna. Það hefur verið lærdómsríkt að koma í heimsókn til Seyðisfjarðar, fyrst skömmu eftir hamfarirnar, en ekki síður í dag þegar uppbyggingin er hafin,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

„Þetta er mikilsverður stuðningur við byggðarlag sem stendur frammi fyrir miklum áskorunum. Íbúar Seyðisfjarðar hafa sýnt þrautseigju og styrk í þessum hamförum og ég er sannfærður um þeir munu nýta sér þennan stuðning til að renna traustum stoðum undir atvinnulífið til framtíðar,“ segir Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings.

„Okkar verkefni er nú, í samvinnu við heimamenn, að móta einstaka þætti þessa verkefnis, og sjá til þess að það fari hratt og vel af stað,“ segir Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar.

Rekstrarráðgjöf og nýsköpun

Markmið verkefnisins er að aðstoða við að leiða til lykta þau stóru óvissumál sem við blasa og jafnframt að bjóða einyrkjum og minni fyrirtækjum uppá rekstrarráðgjöf og styðja við nýsköpun og þróun atvinnutækifæra á Seyðisfirði. Lögð er áhersla á að virkja frumkvæði íbúa og annarra haghafa sem tengjast byggðarlaginu. Meðal annars og ekki síst er verkefninu ætlað að hvetja íbúa og fyrirtæki til að nýta sér kosti þess stoðkerfis sem rekið er af hálfu ríkis og sveitarfélaga.

Í verkefnisstjórn sitja Gauti Jóhannsson og Stefán Bogi Sveinsson fyrir Múlaþing, Ólafur Hr. Sigurðsson og Berglind Harpa Svavarsdóttir fyrir heimastjórn Seyðisfjarðar og Einar Már Sigurðarson fyrir Austurbrú. Gauti er jafnframt formaður verkefnastjórnar. 

 
  • Skoðunarferð um skriðusvæðið á Seyðisfirði. Ólafur Sigurðsson, fyrrverandi bæjarstjóri á Seyðisfirði, sýnir Sigurði Inga Jóhannssyni, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, aðstæður. - mynd
  • Verkefnisstjórn stillir sér upp í aftari röð: F.v.: Stefán Bogi Sveinsson, Berglind Harpa Svavarsdóttir, Gauti Jóhannsson og Ólafur Hr. Sigurðsson. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum