Hoppa yfir valmynd

Frétt

16. mars 2021 Heilbrigðisráðuneytið

​COVID-19: Vottorð um bólusetningu eða fyrri sýkingu tekin gild á landamærum óháð uppruna

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið, í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis, að vottorð um bólusetningu gegn COVID-19 og vottorð um fyrri covid sýkingu verði tekin gild á landamærum Íslands, hvort sem þau eru upprunnin innan EES svæðisins eða utan þess, að því tilskyldu að þau uppfylli sömu kröfur og leiðbeiningar sóttvarnalæknis. Einstaklingar sem framvísa slíkum vottorðum þurfa hvorki að fara í sýnatöku eða sóttkví né framvísa vottorði um neikvætt PCR-próf á landamærunum.

Þau vottorð sem tekin hafa verið gild hingað til á landamærum Íslands eru eftirfarandi:

  • Bólusetningarvottorð gefin út í ríkjum Evrópusambandsins eða Evrópska efnahagssvæðisins með einhverju þeirra bóluefna sem hlotið hafa markaðsleyfi í Evrópu, að því gefnu að þau uppfylli skilyrði sóttvarnalæknis.
  • Skírteini á vegum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO), að því gefnu að WHO hafi fjallað um og viðurkennt bóluefnið sem skráð er í skírteinið.
  • Vottorð um afstaðna COVID-19 sýkingu sem uppfylla skilyrði sóttvarnalæknis.

Ákvörðun heilbrigðisráðherra um að taka gild öll vottorð sem uppfylla sömu kröfur, óháð uppruna þeirra, gerir t.d. þeim sem bólusettir hafa verið í Bandaríkjunum og Bretlandi, kleift að framvísa vottorði sem undanþiggur þá frá aðgerðum á landamærum.

Athygli er vakin á að reglugerð heilbrigðisráðherra felur ekki í sér undanþágu frá gildandi reglum um för yfir landamæri, sbr. reglugerð dómsmálaráðherra nr. 866/2017, með síðari breytingum, sbr. reglugerð nr. 1258/2020.

Aðrar tillögur sóttvarnalæknis varðandi sóttvarnaráðstafanir á landamærum sem fram koma í meðfylgjandi minnisblaði hans eru til skoðunar. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum