Hoppa yfir valmynd

Frétt

17. mars 2021 Dómsmálaráðuneytið

Styttri málsmeðferð og breyting á atvinnuréttindum

Dómsmálaráðherra mælti fyrir frumvarpi um breytingu á lögum um útlendinga og lögum um atvinnuréttindi útlendinga á Alþingi í dag.

Á meðal þeirra álitaefna sem frumvarpinu er ætlað að taka á eru atriði er snerta forgangsmeðferð bersýnilega tilhæfulausra umsókna, málsmeðferðartíma umsókna barna um alþjóðlega vernd, hvenær taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar, hlutverk Barnaverndarstofu við veitingu alþjóðlegrar verndar í málefnum fylgdarlausra barna sem sækja um slíka vernd hér á landi, orðalag útilokunarástæðna við ákvörðun um ríkisfangsleysi, réttindi og skyldur flóttafólks sem kemur til landsins í boði íslenskra stjórnvalda og fjölskyldusameiningu flóttafólks. Þá er lagt til að heimild verði fyrir stjórnvöld til að veita útlendingi sem hlotið hefur alþjóðlega vernd í öðru ríki dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða hafi honum verið synjað um efnismeðferð hér á landi.

Jafnframt eru breytingar lagðar til á nánar tilgreindum ákvæðum laganna varðandi útgáfu dvalarleyfa. Er meðal annars lagt til að doktorsnemar megi vera staddir hér á landi þegar þeir sækja um dvalarleyfi í fyrsta skipti, að heimilt verði að endurnýja dvalarleyfi vegna vistráðningar og að heimilt verði að veita útlendingi, sem misst hefur starf sitt sem krefst sérfræðiþekkingar, dvalarleyfi til þriggja mánaða til þess að hann geti leitað sér annars starfs á grundvelli sérþekkingar sinnar.

Frumvarpinu er einkum ætlað að stuðla að gagnsærri og stöðugri framkvæmd laganna, auka skilvirkni og stytta málsmeðferðartíma til hagsbóta fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi. Þá er frumvarpinu jafnframt ætlað að bæta meðferð opinbers fjár.

Loks eru lagðar til breytingar á lögum um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002. Meðal annars er lagt til að útlendingum sem hafa verið veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða eða sérstakra tengsla við landið samkvæmt lögum um útlendinga verði undanþegnir frá kröfu um tímabundið atvinnuleyfi hér á landi. Með því er átt við að þeir einstaklingar sem fá veitt dvalarleyfi hér á landi á grundvelli mannúðarsjónarmiða þurfi ekki að sækja um atvinnuleyfi sérstaklega heldur verði þeim heimilt að vinna þegar þeir hafa fengið dvalarleyfi.

Í máli ráðherra kom fram að umsóknir um alþjóðlega vernd í hlutfalli við íbúafjölda hefðu verið flestar hér á landi í samanburði við Norðurlöndin eða átján á hverja tíu þúsund íbúa, en sambærileg tala er þrír í Noregi og Danmörku.

Við samningu frumvarpsins hefur verið tekið tillit til alþjóðlegra skuldbindinga Íslands þannig að sem best samræmi verði milli laga og þjóðréttarreglna. Við vinnslu frumvarpsins var meðal annars tekið tillit til athugasemda sem gerðar hafa verið við innleiðingu alþjóðlegra skuldbindinga.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum