Hoppa yfir valmynd

Frétt

7. apríl 2021 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Stofna áfangastaðastofu á Norðurlandi

Frá undirritun í morgun - mynd

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hefur undirritað samning við Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra og Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra um stofnun áfangastaðastofu á Norðurlandi.

Með undirritun samningsins eru orðnar til áfangastaðastofur í öllum landshlutum að undanskildu höfuðborgarsvæðinu en stofnun áfangastaðastofu þar er í undirbúningi. Þar með er leidd til lykta vinna við uppbyggingu stoðkerfis ferðaþjónustu á landsbyggðinni sem hófst í raun með útgáfu áfangastaðaáætlana fyrir alla landshluta árið 2018. Áfangastaðastofur hafa það að meginmarkmiði að stuðla að jákvæðum framgangi svæðisbundinnar ferðaþjónustu með framkvæmd áfangastaðaáætlunar fyrir viðkomandi landsvæði og tryggja að sú áætlun sé í samræmi við m.a. aðra lögbundna áætlanagerð og aðal- og deiliskipulag viðkomandi svæði.

„Það er afskaplega ánægjulegt að við skulum nú hafa náð þeim mikilvæga áfanga að áfangastaðastofur séu starfandi hringinn í kringum landið. Áfangastaðastofur starfa í umboði sveitarfélaga á hverju landsvæði fyrir sig og eru samstarfsvettvangur þeirra, ríkisins og ferðaþjónustunnar sjálfrar. Með starfseminni næst meðal annars fram sú mikilvæga samþætting sem markvisst hefur verið unnið að síðastliðin ár og byggir á sérhæfðum mannauði, þekkingu og reynslu sem mun styðja við verkefni ferðaþjónustunnar í öllum landshlutum. Þannig er stuðlað að því að hún þróist í takt við vilja heimamanna og hafi jákvæð áhrif á nærsamfélagið þar sem sjálfbærni er höfð að leiðarljósi,“ segir ráðherra.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum