Hoppa yfir valmynd

Frétt

9. apríl 2021 Heilbrigðisráðuneytið

COVID 19: Ísland þátttakandi í innleiðingu samræmdra vottorða á Evrópska efnahagssvæðinu

Flugstöð - myndHaraldur Jónasson / Hari

Hafin er vinna sem miðar að því að taka inn í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið tillögu að reglugerð framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um samræmt vottorðakerfi vegna COVID-19, svokölluð græn vottorð. Markmiðið er að greiða fyrir frjálsri för og tryggja um leið örugg ferðalög milli landa. Stefnt er að því að reglugerð um græn vottorð geti tekið gildi seinni hlutann í júní næstkomandi. Fjallað var um málið á fundi ríkisstjórnar í dag.

Gert er ráð fyrir að reglurnar gildi á öllu Evrópska efnahagssvæðinu þannig að EFTA-ríkin Ísland, Noregur, Liechtenstein og Sviss eigi einnig aðild að þeim. Aðildin felur í sér rétt ríkja til útgáfu samræmdra vottorða og skyldu til viðurkenningar vottorða frá öðrum ríkjum.

EFTA-skrifstofan í Brussel óskaði nýverið eftir afstöðu EFTA/EES ríkja um hvort málsmeðferð reglugerðarinnar verði hraðað hjá sameiginlegu EES nefndinni í þeim tilgangi að reglugerðin taki þá gildi samtímis á öllu EES svæðinu. Ríkisstjórn Íslands samþykkti í dag tillögu um að gera ekki athugasemdir við að málsmeðferðinni verði hraðað.

Víða er unnið að gerð vottorða til að liðka fyrir ferðalögum milli landa. Hér á landi var rafrænt bólusetningarvottorð vegna COVID-19 tekið í notkun í janúar sl.  Á landmærum Íslands eru fjórar gerðir vottorða viðurkenndar, þ.e. a) alþjóðabólusetningarskírteinið, b) bólusetningarvottorð sem staðfestir bólusetningu með bóluefni sem Lyfjastofnun Evrópu hefur mælst til að fái markaðsleyfi og sem uppfyllir leiðbeiningar sóttvarnalæknis, c) vottorð sem staðfestir jákvæða niðurstöður úr PCR-prófi sem er eldra en 14 daga gamalt, eða d) vottorð sem staðfestir mótefni með mótefnaprófi sem framkvæmt er með ELISA-aðferð eða sambærilegri aðferð samkvæmt nánari ákvörðun sóttvarnalæknis.

Meginefni reglugerðartillögu um samræmd vottorð á Evrópska efnahagssvæðinu:

  • Nýtt kerfi mun ná yfir fleiri vottorð en bólusetningarvottorð og getur því nýst fleirum til ferðalaga. Í grunninn er miðað við bólusetningu með bóluefnum sem hlotið hafa markaðsleyfi innan EES-svæðisins en þó er ekki loku fyrir það skotið að vottorð megi gefa út í nýja kerfinu fyrir önnur bóluefni sem einstaka aðildarríki viðurkenna.
  • Vottorð verður sönnun þess að einstaklingur hafi verið bólusettur gegn Covid-19, fengið neikvæða niðurstöðu úr prófi (PCR eða viðurkennd hraðpróf) eða náð sér eftir Covid-19 sýkingu. 
  • Vottorð skulu gefin út einstaklingum að kostnaðarlausu, í rafrænu formi eða á pappír. Það mun innihalda strikamerki (QR-kóða) til að tryggja öryggi og sannleiksgildi vottorðs. Komið verður á fót kerfi til að tryggja að hægt verði að sannreyna vottorð hvar sem er innan svæðisins og veita tæknilegan stuðning.
  • Áfram verður á forræði aðildarríkja að ákveða hvaða sóttvarnarráðstafanir megi fella niður fyrir ferðamenn en taka verður vottorðin gild sem sönnun þess að skilyrði séu til staðar.
  • Reglugerðinni er ekki ætlað að hafa áhrif á Schengen-reglur um það hverjir mega koma inn á svæðið frá þriðju ríkjum.
  • Gert er ráð fyrir að vottorðin geti hvoru tveggja falið í sér vottun um sýnatöku með PCR-prófi og með hraðprófi en gert er ráð fyrir að einstök ríki geti ákveðið hvaða próf eru tekin gild.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum