Hoppa yfir valmynd

Frétt

9. apríl 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Sókn fyrir námsmenn: Sumarnám og sumarstörf 2021

Fjölbreytt sumarnám og sumarstörf verða í boði fyrir ungt fólk og atvinnuleitendur í sumar, sem lið í aðgerðum stjórnvalda til þess að stuðla að virkni og framtíðarsókn fyrir íslenskt atvinnulíf.

2.500 sumarstörf fyrir námsmenn
Stjórnvöld ætla að ná til þess hóps námsmanna sem ekki fær starf eða aðgang að öðru úrræði í sumar og munu verja tæpum 2,4 milljörðum kr. í átaksverkefni til að fjölga tímabundnum störfum fyrir námsmenn. Markmiðið er að með átakinu verði til um 2.500 tímabundin störf fyrir námsmenn, 18 ára og eldri, í samvinnu við opinberar stofnanir, sveitarfélög og félagasamtök. Hverjum nýjum námsmanni sem ráðinn er inn með úrræðinu fylgir styrkur sem nemur fullum dagvinnulaunum samkvæmt gildandi kjarasamningum, en mest að hámarki tekjutengdra atvinnuleysisbóta, allt að 472 þúsund kr. á mánuði auk 11,5% framlags í lífeyrissjóð. Ráðningartímabilið er allt að tveir og hálfur mánuður.

Þá verður fylgst náið með framvindu þessa verkefnis til þess að tryggja að námsmenn verði ekki án atvinnu og framfærslu í sumar.

Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra: „Covid-19 faraldurinn hefur haft mikil áhrif á námsmenn, ekki bara á möguleika þeirra á að mæta í skólann heldur einnig á möguleika þeirra á sumarstarfi. Það er mjög mikilvægt að sem flestir námsmenn fái starf í sumar, en þar fá þeir verðmæta reynslu ásamt því að skila verðmætum inn í hagkerfið. Ég hvet opinbera aðila, sveitarfélög og félagasamtök til að nýta þetta úrræði og ráða námsmenn til starfa í sumar.”
 
350 námsmenn fá styrk til nýsköpunar
Nýsköpunarsjóður námsmanna úthlutaði nýverið 311 milljónum kr. til að sporna við atvinnuleysi og styðja við nýsköpun nemenda. Markmið sjóðsins er að gefa háskólum, rannsóknastofnunum og fyrirtækjum tækifæri til að ráða námsme

nn í grunnnámi og námi á meistarastigi við háskóla til sumarvinnu að rannsókna- og þróunarverkefnum. Að þessu sinni hlutu 206 verkefni styrk, og eru því 351 nemendur skráðir til leiks í alls 1037 mannmánuði.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra: „Kappsmál okkar nú er að stuðla að virkni fólks, nýsköpun og vexti. Það er mannauður og hugvit sem mun leggja grunninn að framtíðarhagsæld okkar. Það er allra hagur að tíminn nýtist til góðra verka og aðgerðir stjórnvalda miðast við það – að mæta fjölbreyttum hópi sem vill nýta sumarið til að bæta við sig þekkingu og reynslu,“

Sumarnám 2021 tryggt
Stjórnvöld hyggjast veita alls 650 milljónum kr. til að tryggja framboð á sumarnámi í sumar; 500 milljónir kr. renna til í háskóla og 150 milljónir kr. til framhaldsskóla. Sumarnámið árið 2020 nýttist mörgum vel og spornaði við atvinnuleysi. Fjölbreyttar námsleiðir voru í boði og sóttu rúmlega 650 nemendur námskeið á vegum 10 framhaldskóla og tæplega 5000 nemendur um 260 námskeið á vegum háskólanna.

Nánara fyrirkomulag og framboð sumarnáms 2021 verður kynnt á næstu dögum en stefnt er að því að skólar bjóði upp á stuttar hagnýtar námsleiðir, sérsniðna verklega kynningaráfanga og sérsniðna íslenskuáfanga fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku.

Öflugt jöfnunartæki
Þá er áfram unnið að því að hækka grunnframfærslu námsmanna hjá Menntasjóði námsmanna. Framfærsluviðmið námslána hafa hækkað umfram verðlag, en þó ekki fylgt kaupmáttaraukningu að fullu.

Unnið er að því að brúa þessi bil og ráðgert er að stíga mikilvæg skref í þá veru á næstu vikum. Tillögur þess efnis verða kynntar mennta- og menningarmálaráðherra fyrir 1. maí nk.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum